Dómsmálaráðuneytið

Dómsmálaráðuneytið kemur að framkvæmd alþingiskosninga með margvíslegum hætti, sbr. lög um kosningar til Alþingis. Ráðuneytið annast m.a. gerð og dreifingu kjörgagna bæði utan kjörfundar og á kjörfundi.

Ákveða þóknun
Dómsmálaráðherra ákveður þóknun fyrir störf landskjörstjórnar og yfirkjörstjórna.

Gerðabækur og innsigli
Dómsmálaráðuneytið lætur í té og löggildir gerðabækur landskjörstjórnar og yfirkjörstjórna. Einnig lætur ráðuneytið kjörstjórnum í té embættisinnsigli.

Auglýsing um framlagningu kjörskráa
Dómsmálaráðuneytinu ber að auglýsa framlagningu kjörskráa í fjölmiðlum í síðasta lagi 12 dögum fyrir kjördag, mánudaginn 16. október 2017. Þar á að koma fram að athugasemdir við kjörskrá skuli senda til hlutaðeigandi sveitarstjórna.

Kjörgögn fyrir atkvæðagreiðslu utan kjörfundar
Dómsmálaráðuneytið lætur í té kjörgögn fyrir atkvæðagreiðslu utan kjörfundar og leiðbeiningar um tilhögun atkvæðagreiðslunnar. Kjörgögn þessi skulu vera fyrir hendi hjá þeim sem annast atkvæðagreiðsluna, þ.e. hjá sýslumönnum en utanríkisráðuneytið sér um að koma þessum kjörgögnum til kjörstjóra erlendis.
Kjörgögn sem notuð eru við atkvæðagreiðslu utan kjörfundar eru: Kjörseðill, kjörseðilsumslag, fylgibréf og sendiumslag.

Kjörgögn fyrir kjörfund á kjördag
Dómsmálaráðuneytið lætur gera kjörseðla sem notaðir verða við alþingiskosningarnar. Kjörseðlar skulu vera úr haldgóðum pappír sem prent eða skrift sést ekki í gegnum, að minnsta kosti 125 g/m2 að þyngd.

Kjörseðlana skal brjóta saman þannig að óprentaða hliðin snúi út. Ekki skal fullgera fleiri seðla en þá sem sendir verða undirkjörstjórnum og skal yfirkjörstjórn varast að láta óviðkomandi sjá seðlana áður en hún sendir þá frá sér.

Kjörseðlar skulu að jafnaði fullgerðir eigi síðar en sjö dögum fyrir kjördag, laugardaginn 21. október 2017, og skal dómsmálaráðuneytið þá senda þá til yfirkjörstjórna.

Stærð og gerð atkvæðakassa
Dómsmálaráðherra setur nánari reglur um stærð og gerð atkvæðakassa en í kjörfundarstofu skal vera hæfilega stór atkvæðakassi sem sveitarstjórn leggur til. Atkvæðakassinn skal þannig búinn að ekki sé unnt að ná kjörseðli úr honum án þess að opna hann og þannig að unnt sé að læsa honum.

Kosningaleiðbeiningar ásamt sérútgáfu af lögum um kosningar til Alþingis
Dómsmálaráðuneytið lætur kjörstjórnum í té kosningaleiðbeiningar sem hægt er að festa upp í kjörfundarstofu. Þá skal í hverri kjördeild vera til staðar sérprentun sem dómsmálaráðuneytið gefur út með lögum um kosningar til Alþingis og stjórnarskránni ásamt skýringum ef þurfa þykir.

Geymsla kjörskráa

Yfirkjörstjórn skal búa um allar kjörskrár í innsigluðum umbúðum og senda dómsmálaráðuneytinu sem geymir þær í eitt ár, en að því búnu skal eyða þeim.