Athugið: Þessar síður fjalla um alþingiskosningarnar 27. apríl 2013.

Talning atkvæða

Talning atkvæða

Framkvæmd við talningu atkvæða

Yfirkjörstjórn auglýsir hvar og hvenær talning skal fara fram. Kjósendur mega vera viðstaddir eftir því sem húsrúm leyfir.

Talning fyrir opnum dyrum
Yfirkjörstjórn auglýsir með nægum fyrirvara stund og stað þar sem hún kemur saman til að opna atkvæðakassa og telja atkvæði. Talning skal fara fram fyrir opnum dyrum svo að kjósendum gefist kostur á að vera við eftir því sem húsrúm leyfir.

Í viðurvist umboðsmanna framboðslista opnar svo yfirkjörstjórn atkvæðasendingarnar úr hverri kjördeild eftir að hafa kannað hvort að innsigli þeirra séu í lagi. Yfirkjörstjórn skal þá kanna hvort tala kjósenda, sem greitt hafa atkvæði samkvæmt kjörbókum undirkjörstjórna, sé í samræmi við afhenta atkvæðaseðla og skráðar athugasemdir undirkjörstjórna. Síðan er tæmt úr atkvæðakössum í ílát og innihaldi þeirra blandað saman. Að viðstöddum umboðsmönnum lista eru kjörseðlar flokkaðir eftir listabókstöfum og taldir undir stjórn yfirkjörstjórnar. Heimilt er að hefja flokkun atkvæða og undirbúa talningu þeirra fyrir luktum dyrum áður en kjörfundi lýkur.

Gildur eða ógildur seðill?

Við talningu skal úrskurða um ágreiningsseðla jafnóðum og þeir koma fyrir og bóka í gerðabók hve margir seðlar eru ógildir og ástæður þess. Ef ágreiningur verður innan kjörstjórnar um gildi kjörseðils ræður afl atkvæða úrslitum. Verði hins vegar ágreiningur milli kjörstjórnar og einhvers umboðsmanns um það hvort kjörseðill sé gildur eða ógildur skal leggja þá seðla í tvö sérstök umslög, í annað þá seðla sem kjörstjórn hefur úrskurðað gilda og í hitt þá seðla sem hún hefur úrskurðað ógilda.

Niðurstöður talningar kunngerðar

Þegar atkvæði hafa verið talin færir yfirkjörstjórn niðurstöðu kosninganna í gerðabók og kunngerir hana þeim sem viðstaddir eru. Þess skal gætt að samtala atkvæða beri saman við tölu þeirra sem atkvæði hafa greitt samtals í kjördæminu samkvæmt skýrslum undirkjörstjórna og að allt komi heim við samtölu afgangsseðla.