Athugið: Þessar síður fjalla um forsetakosningar 25. júní 2016.


Táknmálsfréttir - forsetakosningar 25. júní 2016 

Kjörtímabil forseta Íslands rennur út 31. júlí 2016. Í samræmi við lög um framboð og kjör forseta Íslands skal forsetakjör fyrir næsta fjögurra ára tímabil fara fram laugardaginn 25. júní 2016.

Samkvæmt stjórnarskránni getur hver 35 ára gamall maður, sem fullnægir skilyrðum kosningaréttar til Alþingis að frátöldu búsetuskilyrðinu, boðið sig fram til að gegna embætti forseta Íslands.

Framboðum til forsetakjörs skal skila til innanríkisráðuneytisins fyrir miðnætti föstudaginn 20. maí 2016. Framboðunum skal fylgja samþykki þess sem býður sig fram, nægilegur fjöldi meðmælenda og vottorð yfirkjörstjórna um að meðmælendurnir séu kosningabærir. Eigi síðar en 27. maí 2016 skal innanríkisráðuneytið auglýsa í útvarpi og Lögbirtingablaði hverjir séu í kjöri til forsetaembættisins.

Kosningarétt við forsetakjör eiga þeir kjósendur sem eiga kosningarétt til Alþingis. Enginn getur neytt kosningaréttar nema að nafn hans sé á kjörskrá þegar kosning fer fram. Á kjörskrá eru þeir íslenskir ríkisborgarar sem náð hafa 18 ára aldri þegar kosning fer fram og sem lögheimili eiga í viðkomandi sveitarfélagi samkvæmt íbúaskrá þjóðskrár eins og hún er þremur vikum fyrir kjördag, eða laugardaginn 4. júní 2016. Einnig eru teknir á kjörskrá íslenskir ríkisborgarar sem búa erlendis, hafa náð 18 ára aldri og uppfylla nánar tiltekin skilyrði.

Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar hefst laugardaginn 30. apríl 2016

Á kosningavef innanríkisráðuneytisins, www. kosning.is, verða birtar fréttir og nánari upplýsingar um framkvæmd kosninganna, þar með talið um atkvæðagreiðslu utan kjörfundar, kjörskrá, kjörstaði, framboð og fleira. Eru kjósendur hvattir til að kynna sér þær vel.