Athugið: Þessar síður fjalla um forsetakosningar 30. júní 2012.
        Smellið hér til að skoða upplýsingar í tengslum við alþingiskosningar 29. október 2016


Spurningar og svör

Hvar kýs ég ef ég bý erlendis? Er hægt að kjósa bréfleiðis eða rafrænt?

Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar erlendis er alfarið í höndum utanríkisráðuneytisins. Atkvæðagreiðslan fer fram í öllum sendiráðum og einnig er unnt að kjósa utan kjörfundar hjá kjörræðismönnum Íslands erlendis. Lista yfir staðsetningu sendiráða og ræðismanna og nánari upplýsingar er að finna á vef utanríkisráðuneytisins. Hvorki bréfkosning né rafræn kosning er heimil samkvæmt lögum. Kosningalögin byggjast á því að allir kjósendur gefi sig persónulega fram hjá kjörstjóra.

Ég er íslenskur ríkisborgari sem hef átt lögheimili erlendis í meira en átta ár. Get ég sótt um núna hjá Þjóðskrá Íslands að komast á kjörskrá til að taka þátt í forsetakosningunum?

Hafir þú ekki verið búinn að sækja um að verða tekinn á kjörskrá hjá Þjóðskrá Íslands fyrir 1. desember 2011 átt þú ekki rétt á að kjósa við kjör forseta Íslands 30. júní 2012.

Hvernig fer með atkvæði sem er greitt utan kjörfundar hér á landi?

Ef atkvæðið er greitt hjá kjörstjóra í umdæmi þar sem kjósandi er á kjörskrá, þá skilur hann þar eftir bréf með atkvæði sínu og skal sjálfur láta bréfið í venjulegan atkvæðakassa. Atkvæðakassinn skal svo innsiglaður af kjörstjóra ásamt hlutaðeigandi kjörstjórn.
Ef atkvæðið er greitt hjá kjörstjóra í öðru umdæmi en því sem kjósandi er á kjörskrá þá annast og kostar hann sjálfur sendingu atkvæðisbréfs síns. Kjörstjóra er þó skylt, ef kjósandi óskar þess, að koma bréfinu í póst.
Nægjanlegt er að koma bréfi með utankjörfundaratkvæði í einhverja kjördeild þess kjördæmis þar sem kjósandi er á kjörskrá.
Utankjörfundaratkvæði skal vera komið í hendur kjörstjórnar fyrir lok kjörfundar á kjördag svo að hægt sé að taka það til greina við kosninguna.

Hvert á að senda atkvæði sem greitt er utan kjörfundar erlendis?

Kjósendur á erlendri grundu bera sjálfir ábyrgð á því að koma atkvæðum sínum til skila. Senda skal atkvæði til sýslumanns eða kjörstjórnar í því umdæmi þar sem kjósandinn telur sig standa á kjörskrá.  

Eftir að kjósandi hefur greitt atkvæði hjá kjörstjóra er kjörseðilsumslag og fylgibréf sett í forprentað umslag ætlað sýslumanni/kjörstjóra og lokað fyrir. Á bakhlið þess eru upplýsingar um kjósanda sem hann verður að fylla út svo atkvæðið rati á réttan stað. Vilji kjósandi ekki að nafn hans, kennitala og lögheimili sé sýnilegt öðrum er honum heimilt að setja þetta umslag ofan í annað og merkja það viðkomandi sýslumanni eða kjörstjórn.

Utankjörfundaratkvæði skal vera komið í hendur kjörstjórnar fyrir lok kjörfundar á kjördag svo hægt sé að taka það til greina við kosninguna. Nægjanlegt er að koma bréfi með utankjörfundaratkvæði í einhverja kjördeild þess kjördæmis þar sem kjósandi er á kjörskrá.

Lista með embættum sýslumanna er að finna hér, en sé ekki ljóst hvert atkvæðið á að fara má senda það til embættis sýslumannsins í Reykjavík. Það embætti mun sjá um að koma atkvæðinu á réttan stað berist það fyrir kl. 17 á kjördag.

Fyrirgerir atkvæðagreiðsla utan kjörfundar rétti kjósanda til að greiða atkvæði á kjördag?

Nei, kjósanda er heimilt að greiða atkvæði á kjördag þó hann hafi greitt atkvæði utan kjörfundar og kemur atkvæðaseðillinn utan kjörfundar þá ekki til greina við kosninguna.

Hvað geri ég ef ég hef áhuga á að vinna á kjörstað eða innan kjördeilda? Hvar er hægt að sækja um slík störf?

Þeir sem hafa áhuga á að starfa á kjörstað eða innan kjördeilda skulu hafa samband við viðkomandi sveitarstjórn.

Hverjir sjá um framkvæmd kjörs forseta Íslands?

Framkvæmd forsetakjörs er samvinnuverkefni nokkurra opinberra aðila. Má þar nefna innanríkisráðuneytið, Þjóðskrá Íslands, utanríkisráðuneytið, sveitarstjórnir, sýslumenn, kjörstjórnir og Hæstarétt Íslands.