Athugið: Þessar síður fjalla um kosningu til stjórnlagaþings 27. nóvember 2010.
        Smellið hér til að skoða upplýsingar í tengslum við alþingiskosningar 29. október 2016


Framkvæmd

Undirbúningur og framkvæmd kosninga til stjórnlagaþings

Framkvæmd kosninga til stjórnlagaþings er samvinnuverkefni nokkurra opinberra aðila. Má þar nefna dómsmála- og mannréttindaráðuneytið, landskjörstjórn, Þjóðskrá Íslands, utanríkisráðuneytið, sveitarstjórnir og sýslumenn. Þessir aðilar skipta með sér verkum og vinna að því að heildarframkvæmd kosninganna fari fram með skýrum og traustum hætti. Hér að neðan er stiklað á stóru í verkefnum þessara aðila.

Dómsmála- og mannréttindaráðuneytið

Dómsmála- og mannréttindaráðuneytið kemur að framkvæmd kosninga til stjórnlagaþings með margvíslegum hætti. Það annast m.a. gerð og dreifingu kjörgagna bæði utan kjörfundar og á kjörfundi og hefur víðtækt samstarf við alla þá sem að framkvæmd kosninganna koma.

Dómsmála- og mannréttindaráðuneytinu er falið, samkvæmt lögum um stjórnlagaþing nr. 90/2010, að útbúa kynningarefni um frambjóðendur og dreifa því á öll heimili hér á landi. Auk þess skal kynningarefnið birt á vefsíðu á vegum ráðuneytisins, kosning.is. Kynningarefnið byggist á upplýsingum sem frambjóðandi skilar á þar til gerðu eyðublaði og fylgir framboði. Ráðuneytið mun kappkosta að hraða þessari kynningu eftir að framboð liggja fyrir. Ætla má að kynning á frambjóðendum verði þá fljótlega birt hér á kosningavefnum og að prentað kynningarefni verði síðan borið í hús á landinu öllu einni viku til tíu dögum fyrir kosningar.

Landskjörstjórn

Landskjörstjórn auglýsir kosningar til stjórnlagaþings og framboðum skal skila til hennar í síðasta lagi kl. 12 á hádegi 18. október nk. Framboðunum skal skila á eyðublöðum sem landskjörstjórn hefur útbúið í samráði við dómsmálaráðuneytið. Landskjörstjórn auglýsir ennfremur á vefsíðu sinni, landskjor.is, og hér á kosningavef dómsmálaráðuneytisins, kosning.is, þá sem eru í framboði. Í auglýsingunni skal greina nöfn frambjóðenda, starfsheiti þeirra og sveitarfélög þar sem þeir eru búsettir.
Landskjörstjórn raðar frambjóðendum í starfsrófsröð, þar sem fyrsta nafn er valið af handahófi og úthlutar þeim um leið auðkennistölu, sem einnig er valin af handahófi. Auðkennistalan gerir kjósandanum kleift við sjálfa kosninguna, að forgangsraða frambjóðendum á kjörseðilnum samkvæmt sínu eigin vali.
Talning atkvæða fer fram fyrir opnum dyrum hjá landskjörstjórn. Áður auglýsir landskjörstjórn hvar hún mun koma saman til að opna atkvæðakassa og hefja talningu atkvæða. Landskjörstjórn úrskurðar ennfremur um gildi atkvæða sem haldin eru einhverjum annmörkum.
Sjá nánar á vefnum www.landskjor.is.

Þjóðskrá Íslands

Þjóðskrá sér um gerð kjörskrárstofna en enginn getur neytt kosningarréttar nema að nafn hans sé á kjörskrá þegar kosning fer fram. Kjörskrá skal lögð fram fyrir almenning eigi síðar en 17. nóvember 2010. Sjá nánar um gerð kjörskrár hér.

Sveitarstjórnir

Sveitarstjórnir gera kjörskrár á grundvelli kjörskrárstofna frá Þjóðskrá Íslands en aðeins þeir sem eru á kjörskrá þegar kosning fer fram, geta neytt kosningaréttar. Kjörskrá skal lögð fram fyrir almenning eigi síðar en tíu dögum fyrir kjördag.

Sveitarstjórn skipuleggur framkvæmd kosninganna í heimabyggð, ákveður m.a. kjörstaði og auglýsir þá með nægum fyrirvara.

Sýslumenn

Framkvæmd utankjörfundaratkvæðagreiðslu fer að mestu leyti fram hjá embættum sýslumanna. Sjá nánar um utankjörfundaratkvæðagreiðslu hér.

Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðuneytið sér um framkvæmd utankjörfundaratkvæðagreiðslu sem fram fer erlendis og auglýsir hvar og hvenær atkvæðagreiðsla getur farið fram. Utankjörfundaratkvæðagreiðsla vegna kosninga til stjórnlagaþings hefst 10. nóvember 2010.

Erlendis skal atkvæðagreiðsla utan kjörfundar fara fram í skrifstofu sendiráðs eða fastanefndar hjá alþjóðastofnun, í sendiræðisskrifstofu eða í skrifstofu kjörræðismanns samkvæmt nánari ákvörðun utanríkisráðuneytisins. Utanríkisráðuneytið getur og ákveðið að atkvæðagreiðsla fari fram á öðrum stöðum erlendis.