Athugið: Þessar síður fjalla um kosningu til stjórnlagaþings 27. nóvember 2010.
        Smellið hér til að skoða upplýsingar í tengslum við alþingiskosningar 29. október 2016


Atkvæðagreiðsla á kjördag

Atkvæðagreiðsla á kjördag 27. nóvember 2010

Kjörstaðir

Sveitarstjórn skal auglýsa kjörstað með nægilegum fyrirvara á þann hátt sem venja er að birta opinberar auglýsingar.

Upphaf og lok kjörfundar

Upphaf: Kjörstaðir skulu opnaðir á bilinu 9-12 árdegis og skal sveitarstjórn eða yfirkjörstjórn auglýsa nákvæma tímasetningu með hæfilegum fyrirvara.

Lok: Meginreglan er að atkvæðagreiðslu megi ekki slíta fyrr en átta klukkustundir eru liðnar frá því að kjörfundur hófst og ekki fyrr en hálf klukkustund er liðin frá því að kjósandi gaf sig síðast fram. Frá þessari meginreglu er þó sú undantekning að atkvæðagreiðslu megi slíta ef allir sem eru á kjörskrá hafa greitt atkvæði og eftir fimm klukkustundir ef öll kjörstjórnin og umboðsmenn eru sammála um það, enda sé hálf klukkustund liðin frá því að kjósandi gaf sig síðast fram. Kjörfundi skal þó slitið eigi síðar en kl. 22 á kjördag.

Kjósandi þarf aðstoð

Ef kjósandi skýrir kjörstjórn svo frá að hann sé eigi fær um að kjósa á fyrirskipaðan hátt sakir sjónleysis eða annarar fötlunar skal sá úr kjörstjórninni er kjósandi nefnir veita honum aðstoð til þess í kjörklefanum, enda er sá sem aðstoðina veitir bundinn þagnarheiti um að segja ekki frá því sem þeim fer þar á milli. Aðstoð skal þó aðeins veita að kjósandi geti sjálfur skýrt þeim er aðstoðina veitir ótvírætt frá því hvernig hann vill greiða atkvæði sitt. Kjósandi verður sjálfur að biðja um aðstoð.

Blindir geta komið með aðstoðarmann að eigin vali til að kjósa

Í venjulegum kosningum hefur sérstökum óskum blindra og sjónskertra verið mætt á þann veg að útbúin eru sérstök blindraspjöld á borði í kjörklefanum, þannig að þeir sem kunna Braillé-blindraletrið geti sjálfir og einir síns liðs í kjörklefanum merkt við þann listabókstaf sem þeir greiða atkvæði sitt.

Ekki er unnt í kosningunum til stjórnlagaþings að útbúa blindraspjöld, því að kjósendur eiga að rita fjögurra tölustafa auðkennistölur í minnst eina og mest 25 vallínur. 

Til þess að koma til móts við þarfir þessa hóps er heimilað að kjósendur í þessari stöðu geti haft með sér aðstoðarmann að eigin vali, en auk þess er talið nauðsynlegt kjörstjóri eða annar af hálfu kjörstjórnar sé viðstaddur þegar seðillinn er fylltur út. Hið sama gildir við atkvæðagreiðslu utan kjörfundar.

Réttur til að fá nýjan kjörseðil

Láti kjósandi sjá hvernig hann hefur greitt atkvæði sitt er seðillinn ónýtur og má ekki leggja hann í atkvæðakassann. Ef kjósanda verður þetta á eða ef hann setur skakkt kjörmerki á seðil eða seðill krotast hjá honum af vangá á hann rétt á að fá nýjan kjörseðil. Skal hann þá afhenda kjörstjórninni hinn fyrri seðil.