Athugið: Þessar síður fjalla um sveitarstjórnarkosningar 31. maí 2014.


Hlutverk sveitarstjórna og kjörstjórna

Hlutverk sveitarstjórna og kjörstjórna

Kjörstjórnir í hverju sveitarfélagi eru kosnar af viðkomandi sveitarstjórn og skulu bæði aðal- og varamenn í kjörstjórn eiga kosningarétt í sveitarfélaginu. Kjörstjórnir skipta sjálfar með sér verkum og eru óháðar ákvörðunarvaldi sveitarstjórnar í störfum sínum. Sé fulltrúi í kjörstjórn á framboðslista í viðkomandi kosningum skal hann víkja sæti. Kjörstjórnir eru yfirkjörstjórnir, undirkjörstjórnir og hverfiskjörstjórnir.

Sveitarstjórn

Sveitarstjórn kýs yfirkjörstjórn og aðrar kjörstjórnir sveitarfélags. Sveitarstjórn gerir kjörskrá á grundvelli kjörskrárstofns frá Þjóðskrá Íslands og tekur til meðferðar athugasemdir við kjörskrána. Sveitarstjórn tekur ákvörðun um skiptingu sveitarfélagsins í kjördeildir og um kjörstaði. Allur kostnaður vegna sveitarstjórnarkosninga greiðist úr sveitarsjóði, þar á meðal er kostnaður vegna kjörnefndar sem skipa þarf ef sveitarstjórnarkosningar eru af einhverjum ástæðum kærðar til sýslumanns.

Yfirkjörstjórn

Yfirkjörstjórn hefur yfirumsjón með framkvæmd sveitarstjórnarkosninga í viðkomandi sveitarfélagi en þar sem sveitarfélagi er ekki skipt upp í kjördeildir gegnir hún jafnframt hlutverki undirkjörstjórnar. Meðal verkefna yfirkjörstjórnar eru móttaka framboðslista og úrskurðir um gildi þeirra, gerð kjörseðla sem notaðir eru við atkvæðagreiðslu á kjörfundi og dreifing þeirra til undirkjörstjórna, úrskurðir um gildi vafaatkvæða, talning atkvæða og uppgjör kosninga, og útgáfa kjörbréfa til aðal- og varamanna í nýkjörinni sveitarstjórn.

Undirkjörstjórn

Undirkjörstjórnir skulu vera jafnmargar kjördeildum í sveitarfélaginu. Undirkjörstjórn sér um framkvæmd atkvæðagreiðslu í viðkomandi kjördeild á kjördag.

Hverfiskjörstjórn

Þar sem fleiri en ein kjördeild er á kjörstað hefur sérstök hverfiskjörstjórn umsjón með kosningastarfi á kjörstaðnum í umboði yfirkjörstjórnar.