Algengar spurningar

Algengar spurningar

 

Kjörstaðir á kjördag

Sveitarfélög auglýsa kjörstaði við sveitarstjórnarkosningarnar 31. maí 2014 og mörg þeirra birta einnig kjörfundarupplýsingar á vefjum sínum.

Kjörstaðir eru almennt opnir frá kl. 9 árdegis til kl. 22 að kvöldi en þó geta kjörstjórnir ákveðið að byrja síðar og hætta fyrr.

 Upplýsingar um kjörstaði

- Hvernig fer með atkvæði sem er greitt utan kjörfundar hér á landi?

Ef atkvæðið er greitt hjá sýslumanni í umdæmi þar sem kjósandi er á kjörskrá þá skilur hann þar eftir bréf með atkvæði sínu og skal hann sjálfur láta bréfið í atkvæðakassa.

Ef atkvæðið er greitt hjá sýslumanni í öðru umdæmi en því sem kjósandi er á kjörskrá þá annast og kostar hann sjálfur sendingu atkvæðisbréfs síns. Sýslumanni er þó skylt, ef kjósandi óskar þess, að koma bréfinu í póst.

Utankjörfundaratkvæði skal vera komið í hendur kjörstjórnar fyrir lok kjörfundar á kjördag svo að hægt sé að taka það til greina við kosninguna. Nægjanlegt er að koma bréfi með utankjörfundaratkvæði í einhverja kjördeild þess sveitarfélags þar sem kjósandi er á kjörskrá.

- Hvert á að senda atkvæði sem greitt er utan kjörfundar erlendis?

Kjósendur á erlendri grundu bera sjálfir ábyrgð á því að koma atkvæðum sínum til skila á Íslandi. Senda skal atkvæði til sýslumanns eða kjörstjórnar í því sveitarfélagi þar sem kjósandi telur sig vera á kjörskrá.

Eftir að kjósandi hefur greitt atkvæði hjá kjörstjóra er kjörseðilsumslag og fylgibréf sett í forprentað umslag (sendiumslag) ætlað viðkomandi sýslumanni eða kjörstjórn og lokað fyrir. Á bakhlið þess eru upplýsingar um kjósanda sem hann verður að fylla út svo atkvæðið rati á réttan stað. Vilji kjósandi ekki að nafn hans, kennitala og lögheimili á Íslandi sé sýnilegt öðrum er honum heimilt að setja þetta umslag ofan í annað og merkja það viðkomandi sýslumanni eða kjörstjórn.

Hægt er að senda utankjörfundaratkvæði með pósti eða koma því á einhvern annan hátt í hendur hlutaðeigandi kjörstjórnar en það verður að berast fyrir lok kjörfundar á kjördag svo hægt sé að taka það til greina við kosninguna. Nægjanlegt er að koma bréfi með utankjörfundaratkvæði í einhverja kjördeild þess sveitarfélags þar sem kjósandi er á kjörskrá.

- Get ég greitt atkvæði á kjördag ef ég hef áður greitt atkvæði utankjörfundar?

Já, kjósanda er heimilt að greiða atkvæði á kjördag þótt hann hafi greitt atkvæði utan kjörfundar og kemur atkvæðaseðillinn utan kjörfundar þá ekki til greina við kosninguna.

- Er hægt að óska eftir því að fulltrúi sýslumanns komi í heimahús fyrir kjördag til þess að kjósandi geti neytt atkvæðisréttar síns?

Já, kjósendum sem ekki geta greitt atkvæði á kjörfundi vegna sjúkdóms, fötlunar eða barnsburðar er heimilt að greiða atkvæði í heimahúsi. Sækja þarf um það í síðasta lagi kl. 16 fjórum dögum fyrir kjördag á sérstöku eyðublaði. Ósk um að greiða atkvæði í heimahúsi skal studd vottorði lögráða manns um hagi kjósandans.

- Ef ég kemst ekki til kjörfundar vegna veikinda á kjördag er möguleiki að fá sendan fulltrúa frá kjörstjórn heim?

Nei, ekki er unnt að fá sendan fulltrúa frá kjörstjórn heim á kjördag.

- Skiptir máli hvort maður gerir x eða + á kjörseðilinn?

Með orðalaginu að marka kross á kjörseðilinn er átt við bókstafinn x, en táknið + væri jafngilt. Ef merking er með öðrum hætti metur kjörstjórn hvort áletrunin er slík að meta skuli seðilinn ógildan samkvæmt ákvæðum kosningalaga.

- Hverjir sjá um framkvæmd sveitarstjórnarkosninganna?

Auk sveitarstjórna og kjörstjórna koma að framkvæmd sveitarstjórnarkosninga ýmsir opinberir aðilar, svo sem innanríkisráðuneytið, utanríkisráðuneytið, sýslumenn og Þjóðskrá Íslands.

- Hvar kýs ég ef ég bý erlendis? Er hægt að kjósa bréfleiðis eða rafrænt?

Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar erlendis er alfarið í höndum utanríkisráðuneytisins. Atkvæðagreiðslan fer fram í öllum sendiráðum og einnig er unnt að kjósa utan kjörfundar hjá kjörræðismönnum Íslands erlendis. Listi yfir staðsetningu sendiráða og ræðismanna og nánari upplýsingar verða birtar á vef utanríkisráðuneytisins.

Hvorki bréfkosning né rafræn kosning er heimil. Samkvæmt kosningalögum þurfa allir kjósendur að gefa sig persónulega fram hjá kjörstjóra.

- Ég er íslenskur ríkisborgari sem á lögheimili erlendis. Get ég kosið í sveitarstjórnarkosningunum 31. maí 2014?

Skilyrði þess að eiga kosningarétt í sveitarstjórnarkosningunum er að hafa átt skráð lögheimili á Íslandi þremur vikum fyrir kjördag, 10. maí 2014. Aðrir eru ekki á kjörskrá.

Eina undantekningin frá þessu eru íslenskir námsmenn á hinum Norðurlöndunum sem þurft hafa að skrá lögheimili sitt þar samkvæmt ákvæðum samnings Norðurlandanna um almannaskráningu. Þeir glata ekki kosningarétti sínum í sveitarstjórnarkosningum vegna þess.

- Hverjir eru ekki teknir á kjörskrá?

Einstaklingur er ekki tekinn á kjörskrá í tilteknu sveitarfélagi nema hann hafi verið skráður með lögheimili í því samkvæmt íbúaskrá þjóðskrár þremur vikum fyrir kjördag, laugardaginn 10. maí 2014. Það er því hin opinbera skráning í þjóðskrá sem gildir. Ekki er hægt að taka mann á kjörskrá í sveitarfélagi hafi honum láðst að tilkynna nýtt lögheimili til Þjóðskrár Íslands fyrir fyrrgreindan viðmiðunardag kjörskrár.

- Hvað geri ég ef ég hef áhuga á að vinna á kjörstað eða innan kjördeilda? Hvar er hægt að sækja um slík störf?

Þeir sem hafa áhuga á að starfa á kjörstað eða innan kjördeilda skulu hafa samband við viðkomandi sveitarfélag.        Athugið: Þessar síður fjalla um sveitarstjórnarkosningar 31. maí 2014.