Aðrar kjörstjórnir sveitarfélaga

Í 2. mgr. 15. gr. laga um kosningar til Alþingis er sveitarstjórnum veitt heimild til að kjósa sérstakar kjörstjórnir.

Í fyrsta lagi er miðað við að ef kjördeildir eru fleiri en ein í sveitarfélagi geti sveitarstjórn kosið sérstaka þriggja manna kjörstjórn til að hafa umsjón með starfi undirkjörstjórna. Þessi sérstaka kjörstjórn samræmir þá störf undirkjörstjórna, auglýsir kosningu, annast skýrslugerð og fleira.

Í öðru lagi er gert ráð fyrir að þar sem kjördeildir eru fleiri en ein á sama kjörstað skuli sveitarstjórn kjósa þriggja manna hverfiskjörstjórn til að hafa með höndum stjórn undirkjörstjórna á kjörstaðnum.

Í þriðja lagi er mælt fyrir um að ef slíkir kjörstaðir, sem rætt er um í 2. lið hér að ofan, eru fleiri en einn í sveitarfélagi skuli sveitarstjórn kjósa sérstaka yfirkjörstjórn sveitarfélagsins.

Allar þessar kjörstjórnir skulu reiðubúnar að koma fyrirvaralaust á fund á kjördag til ákvarðana og úrskurða í sambandi við kosninguna ef með þarf.