Sveitarstjórnir

Sveitarstjórn hvers sveitarfélags sér um gerð kjörskrár, kosningu undirkjörstjórna og sérstakra kjörstjórna og skiptingu sveitarfélags í kjördeildir.

Kjördeildir

Skipting sveitarfélags
Hverju kjördæmi skal skipt í kjördeildir og er hvert sveitarfélag ein kjördeild nema sveitarstjórn ákveði að skipta því í fleiri kjördeildir. Kjördeildir skal að jafnaði kenna við kjörstað eða tölusetja til aðgreiningar.

Kjörstjórnir

Kosning undirkjörstjórna og sérstakra kjörstjórna
Sveitarstjórn kýs undirkjörstjórn í hverja kjördeild, þrjá aðalmenn og þrjá til vara. Einnig geta sveitarstjórnir kosið sérstakar kjörstjórnir.

Kjörskrár

Gerð kjörskrár
Sveitarstjórnir gera kjörskrár á grundvelli kjörskrárstofna frá Þjóðskrá Íslands. Aðeins þeir sem eru á kjörskrá þegar kosning fer fram geta neytt kosningaréttar. Kjörskrá skal lögð fram almenningi til sýnis eigi síðar en tíu dögum fyrir kjördag, miðvikudaginn 18. október 2017.

Framlagning kjörskrár
Þegar kjörskrá hefur verið samin skal hún undirrituð af oddvita sveitarstjórnar eða framkvæmdastjóra sveitarfélags. Kjörskrá skal liggja frammi almenningi til sýnis í minnst tíu daga fyrir kjördag, frá 18. október 2017. Algengast er að hún liggi frammi á skrifstofum sveitarfélaganna á almennum skrifstofutíma og er sveitarstjórn falið að auglýsa framlagningarstað.

Kjörstaðir

Ákvörðun kjörstaðar
Sveitarfélög auglýsa kjörstaði við alþingiskosningarnar 28. október 2017. Mörg þeirra birta einnig kjörfundarupplýsingar á vefjum sínum. Kjörstaðir eru almennt opnir frá kl. 9 árdegis til kl. 22 að kvöldi. Þó geta kjörstjórnir ákveðið að byrja síðar og hætta fyrr. Dómsmálaráðuneytið safnar upplýsingum um kjörstaði um allt land og birtir hér á vefnum nokkrum dögum fyrir kjördag.