Fréttir

Lausir listabókstafir

26.9.2017

Leiðbeiningar um listabókstafi er að finna í 38. gr. laga um kosningar til Alþingis nr. 24/2000. Hvetur ráðuneytið þá sem hyggja á framboð að kynna sér ákvæðið vel, sem og allan VII. kafla laganna er fjallar um framboð. Í 1. mgr. 38. gr. kemur m.a. fram að ráðuneytið skuli halda skrá um listabókstafi þeirra stjórnmálasamtaka sem buðu fram lista við síðustu alþingiskosningar og birta skrána opinberlega með auglýsingu.

Sú auglýsing birtist í Stjórnartíðindum 20. september sl. Þar kemur fram að eftirtaldir flokkar hafi boðið fram í síðustu alþingiskosningum, 29. október 2016:

A-listi                            Björt framtíð

B-listi                            Framsóknarflokkur

C-listi                            Viðreisn

D-listi                            Sjálfstæðisflokkur

E-listi                            Íslenska þjóðfylkingin

F-listi                            Flokkur fólksins

H-listi                            Húmanistaflokkurinn

P-listi                            Píratar

R-listi                            Alþýðufylkingin

S-listi                            Samfylkingin - jafnaðarmannaflokkur Íslands

T-listi                            Dögun – stjórnmálasamtök um réttlæti, sanngirni og lýðræði

V-listi                            Vinstrihreyfingin – grænt framboð

 Aðrir bókstafir en þarna koma fram teljast lausir. Rétt er þó að taka fram að í kosningum til Alþingis hefur hvorki broddstöfum (Á, Í, Ó o.s.frv.) verið úthlutað né heldur bókstöfunum Ð, X og Ö þar sem þeir geta valdið ruglingi og þar með aukið hættu á ógildingu atkvæða – einkum atkvæða sem greidd eru utan kjörfundar. Samkvæmt 2. mgr. 38. gr. laga nr. 24/2000 ákveður ráðuneytið bókstaf nýrra samtaka að fengnum óskum þeirra og með hliðsjón af listabókstöfum annarra stjórnmálasamtaka í undangengnum kosningum.