Kosningaréttur og kjörskrá

Gerð kjörskrár

Sveitarstjórnir gera kjörskrár á grundvelli kjörskrárstofna frá Þjóðskrá Íslands. Á kjörskrá skal taka alla þá sem kosningarétt eiga í viðkomandi kosningum og er skráning á kjörskrá skilyrði þess að fá að greiða atkvæði. Kjörskrár vegna alþingiskosninganna 28. október 2017 skulu lagðar fram í síðasta lagi 18. október 2017.

Kjörskrá skal rita á eyðublöð sem Þjóðskrá Íslands lætur í té og skal farið nákvæmlega eftir leiðbeiningum hennar. Þjóðskrá Íslands sendir sveitarstjórnum kjörskrárstofn fljótlega eftir viðmiðunardag kjörskrár sem er 23. september 2017. Kjörskrár skulu lagðar fram eigi síðar en tíu dögum fyrir kjördag, miðvikudaginn 18. október 2017. Skulu þær liggja frammi á skrifstofum sveitarfélaga eða öðrum hentugum stað á almennum skrifstofutíma til kjördags.

Hverjir eiga kosningarétt?

Kosningarétt við alþingiskosningarnar 28. október 2017 eiga allir íslenskir ríkisborgarar sem náð hafa 18 ára aldri á kjördag og lögheimili eiga hér á landi.

Jafnframt eiga kosningarétt þeir íslenskir ríkisborgarar sem fluttu lögheimili sitt til útlanda eftir 1. desember 2008 og náð hafa 18 ára aldri á kjördag.

Þá eiga kosningarétt þeir íslenskir ríkisborgarar, sem fluttu lögheimili sitt til útlanda fyrir 1. desember 2008, hafi þeir sótt um það til Þjóðskrár Íslands fyrir 1. desember 2016.

Hvar ertu á kjörskrá?

Kjósendur eru á kjörskrá í því sveitarfélagi þar sem þeir eiga skráð lögheimili á viðmiðunardegi fimm vikum fyrir kjördag, þann 23. september 2017. Flutningur lögheimilis eftir þann tíma breytir ekki skráningu á kjörskrá.

Þeir íslenskir ríkisborgarar, sem lögheimili eiga erlendis og sem kosningarétt eiga við alþingiskosningarnar, eru á kjörskrá í því sveitarfélagi þar sem þeir áttu síðast skráð lögheimili hér á landi.

Viðmiðunardagur kjörskrár er 23. september 2017. Þjóðskrá Íslands hefur opnað fyrir rafrænan aðgang og kjósendur geta því kynnt sér hér á vefnum hvar þeir eru skráðir á kjörskrá.

Athugasemdir við kjörskrá

Hver sem er getur gert athugasemdir til sveitarstjórnar um að nafn eða nöfn einhverra kjósenda vanti á kjörskrá eða þeim sé þar ofaukið. Heimilt er að gera slíkar athugasemdir til sveitarstjórnar fram á kjördag.

Sveitarstjórn skal þegar taka til meðferðar athugasemdir er henni berast vegna kjörskrár og gera viðeigandi leiðréttingar á henni. Tilefni slíkra leiðréttinga er einkum öflun eða missir íslensks ríkisfangs eða andlát á tímabilinu frá viðmiðunardegi kjörskrár til kjördags. Slíkar leiðréttingar má gera fram á kjördag. Óheimilt er að breyta kjörskrá vegna breytts lögheimilis hafi tilkynning um nýtt lögheimili ekki borist Þjóðskrá Íslands fyrir viðmiðunardag kjörskrár, 23. september 2017.

Sveitarstjórn skal þegar tilkynna hlutaðeigandi einstaklingum um leiðréttingar á kjörskrá, svo og þeirri sveitarstjórn er málið getur varðað.