Spurningar og svör

Kjörstaðir á kjördag

Sveitarfélög auglýsa kjörstaði við alþingiskosningarnar 28. október. Mörg þeirra birta einnig kjörfundarupplýsingar á vefjum sínum. Kjörstaðir eru almennt opnir frá kl. 9 árdegis til kl. 22 að kvöldi. Þó geta kjörstjórnir ákveðið að byrja síðar og hætta fyrr. Dómsmálaráðuneytið safnar saman upplýsingum um kjörstaði og tengir í slíkar upplýsingar á vefsíðum sveitarfélaga eftir því sem þær berast, þegar nær dregur kosningum.

Má ég kjósa á öðrum stað en þar sem ég er á kjörskrá?

Heimilt er að kjósa á öðrum kjörstað en þar sem kjósandi er á kjörskrá ef kjörstaðurinn er innan sama kjördæmis. Í því tilviki skal kjósandi gefa sig fram við kjörstjórn / hverfiskjörstjórn þar sem kjósandi ætlar að kjósa, óska eftir á sérstöku eyðublaði að fá að kjósa á þeim kjörstað og afsala sér jafnframt kosningarrétti á þeim stað sem hann er skráður á kjörskrá. Kjörstjórnin á þeim kjörstað þar sem kjósandi kýs staðfestir afsalið og tilkynnir kjörstjórninni þar sem kjósandi er á kjörskrá.  

Ég á ekki skilríki með mynd og kennitölu, get ég þá ekki kosið?

Nauðsynlegt er að kjósandi geti gert grein fyrir sér áður en hann fær afhentan kjörseðil. Algengast er að kjósandi framvísi svokölluðum kennivottorðum, þ.e.  persónuskilríki með nafni og mynd og eftir atvikum undirskrift, svo sem vegabréfi, ökuskírteini, greiðslukorti eða nafnskírteini.

Ef slíkum kennivottorðum er ekki til að dreifa getur kjósandi gert grein fyrir sér á annan hátt, t.d. með því að leiða vitni sem kjörstjórn/kjörstjóri tekur gild. Það er komið undir mati kjörstjórnar/kjörstjóra  hverju sinni hvenær kjósandi telst hafa gert grein fyrir sér á fullnægjandi hátt.

Af hverju er ég nú skráður á kjörskrá í Reykjavíkurkjördæmi norður þó ég hafi síðast verið búsettur í Reykjavíkurkjördæmi suður, áður en ég flutti erlendis?

Um þá sem búsettir eru erlendis, en eiga kosningarrétt hér á landi og eru á kjörskrá annað hvort í Reykjavíkurkjördæmi suður eða norður, gildir 2. mgr. 23. gr. laga um kosningar til Alþingis nr. 24/2000.  Þar segir að í suðurkjördæmi komi þeir sem fæddir eru fyrri hluta hvers mánaðar en í norðurkjördæmi þeir sem fæddir eru síðari hluta hvers mánaðar. Landskjörstjórn ákveður hvar mörkin skuli vera í mánuði, sbr. 1. mgr. 7. gr.  Landskjörstjórn hefur birt ákvörðun sína, sbr. auglýsingu nr. 836/2017

Í auglýsingunni kemur fram að í Reykjavíkurkjördæmi suður komi allir þeir sem eru fæddir 1.-15. dag mánaðar en í Reykjavíkurkjördæmi norður komi allir þeir sem fæddir eru 16. dag mánaðar eða síðar. 

Hvar kýs ég ef ég bý erlendis? Er hægt að kjósa bréfleiðis eða rafrænt?

Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar erlendis er alfarið í höndum utanríkisráðuneytisins. Atkvæðagreiðslan fer fram í öllum sendiráðum og einnig er unnt að kjósa utan kjörfundar hjá kjörræðismönnum Íslands erlendis. Lista yfir staðsetningu sendiráða og ræðismanna og nánari upplýsingar er að finna á vef Stjórnarráðsins . Hvorki bréfkosning né rafræn kosning er heimil. Samkvæmt kosningalögum þurfa allir kjósendur að gefa sig persónulega fram hjá kjörstjóra. Sjá nánar um atkvæðagreiðslu utan kjörfundar.

Hvernig fer með atkvæði sem er greitt utan kjörfundar hér á landi?

 Ef atkvæði er greitt hjá sýslumanni í umdæmi þar sem kjósandi er á kjörskrá þá skilur hann þar eftir bréf með atkvæði sínu og skal hann sjálfur láta bréfið í atkvæðakassa.

Ef atkvæði er greitt hjá sýslumanni í öðru umdæmi en því sem kjósandi er á kjörskrá þá annast hann og kostar sjálfur sendingu atkvæðisbréfs síns. Sýslumanni er þó skylt, ef kjósandi óskar þess, að koma bréfinu í póst. Bréfið með atkvæðinu í skal stílað á sýslumanninn eða kjörstjórnina í því umdæmi sem kjósandi er á kjörskrá.

Utankjörfundaratkvæði skal vera komið í hendur kjörstjórnar fyrir lok kjörfundar á kjördag svo að hægt sé að taka það til greina við kosninguna. Nægjanlegt er að koma bréfi með utankjörfundaratkvæði í einhverja kjördeild þess kjördæmis þar sem kjósandi er á kjörskrá. Sá sem tekur að sér að koma bréfinu með utankjörfundaratkvæðinu í kjördeild má afhenda það kjörstjórninni í kjördæmi kjósanda. 

Hvert á að senda atkvæði sem greitt er utan kjörfundar erlendis?

Kjósendur á erlendri grundu bera sjálfir ábyrgð á því að koma atkvæðum sínum til skila á Íslandi. Senda skal atkvæði til sýslumanns eða kjörstjórnar í því umdæmi þar sem kjósandi telur sig vera á kjörskrá.

Eftir að kjósandi hefur greitt atkvæði hjá kjörstjóra er kjörseðilsumslag og fylgibréf sett í forprentað umslag (sendiumslag) ætlað viðkomandi sýslumanni eða kjörstjórn og því lokað. Á bakhlið þess er gert ráð fyrir upplýsingum um kjósanda sem hann verður að fylla út svo atkvæðið rati í rétt kjördæmi. Vilji kjósandi ekki að nafn hans, kennitala og lögheimili á Íslandi sé sýnilegt öðrum er honum heimilt að setja þetta umslag ofan í annað og merkja það viðkomandi sýslumanni eða kjörstjórn.

Hægt er að senda utankjörfundaratkvæði með pósti eða koma því á einhvern annan hátt í hendur hlutaðeigandi kjörstjórnar en það verður að berast fyrir lok kjörfundar á kjördag svo hægt sé að taka það til greina við kosninguna. Nægjanlegt er að koma bréfi með utankjörfundaratkvæði í einhverja kjördeild þess kjördæmis þar sem kjósandi er á kjörskrá.

Lista með embættum sýslumanna er að finna hér, en sé ekki ljóst hvert atkvæðið á að fara má senda það til embættis sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu. Það embætti mun sjá um að koma atkvæðinu á réttan stað berist það fyrir kl. 17 á kjördag.

Er hægt að óska eftir því að fulltrúi sýslumanns komi í heimahús fyrir kjördag til þess að kjósandi geti neytt atkvæðisréttar síns?

Já, kjósendum sem ekki geta greitt atkvæði á kjörfundi vegna sjúkdóms, fötlunar eða barnsburðar er heimilt að greiða atkvæði í heimahúsi. Sækja þarf um það í síðasta lagi kl. 16 fjórum dögum fyrir kjördag á sérstöku eyðublaði. Ósk um að greiða atkvæði í heimahúsi skal studd vottorði lögráða manns um hagi kjósandans.

Ef ég kemst ekki til kjörfundar vegna veikinda á kjördag er möguleiki að fá sendan fulltrúa frá kjörstjórn heim?

Nei, ekki er unnt að fá sendan fulltrúa frá kjörstjórn heim á kjördag.

Ég er búinn að kjósa utankjörfundar - get ég kosið aftur?

Já, kjósanda er heimilt að greiða atkvæði á kjördag þó hann hafi greitt atkvæði utan kjörfundar og kemur atkvæðaseðillinn utan kjörfundar þá ekki til greina við kosninguna. Jafnframt getur kjósandi kosið oftar en einu sinni utan kjörfundar og ræður þá dagsetning fylgibréfs með síðasta greidda atkvæðinu.

Hvað geri ég ef ég hef áhuga á að vinna á kjörstað eða innan kjördeilda? Hvar er hægt að sækja um slík störf?

Þeir sem hafa áhuga á að starfa á kjörstað eða innan kjördeilda skulu hafa samband við viðkomandi sveitarstjórn.

Hverjir sjá um framkvæmd alþingiskosninganna?

Framkvæmd alþingiskosninga er samvinnuverkefni nokkurra opinberra aðila. Má þar nefna Alþingi, dómsmálaráðuneytið, utanríkisráðuneytið, sýslumenn, sveitarstjórnir, Þjóðskrá Íslands, kjörstjórnir og landskjörstjórn.

Hvaða listabókstafir eru lausir?

Nokkuð ítarlegar leiðbeiningar um listabókstafi er að finna í 38. gr. laga um kosningar til Alþingis nr. 24/2000 og hvetur ráðuneytið þá sem huga á framboð að kynna sér hana vel, sem og allan VII. kafla laganna er fjallar um framboð. Í 1. mgr. 38. gr.  kemur m.a. fram að ráðuneytið skuli halda skrá um listabókstafi þeirra stjórnmálasamtaka sem buðu fram lista við síðustu alþingiskosningar og birta skránna opinberlega með auglýsingu. Sú auglýsing birtist í Stjórnartíðindum 20. september sl. Samkvæmt henni buðu eftirtaldir flokkar fram í kosningum til Alþingis árið 2016:

A-listi                            Björt framtíð

B-listi                            Framsóknarflokkur

C-listi                            Viðreisn

D-listi                            Sjálfstæðisflokkur

E-listi                            Íslenska þjóðfylkingin

F-listi                            Flokkur fólksins

H-listi                            Húmanistaflokkurinn

P-listi                            Píratar

R-listi                            Alþýðufylkingin

S-listi                            Samfylkingin - jafnaðarmannaflokkur Íslands

T-listi                            Dögun – stjórnmálasamtök um réttlæti, sanngirni og lýðræði

V-listi                            Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Hafa ber í huga að í kosningum til Alþingis hefur hvorki broddstöfum (Á, Í, Ó o.s.frv.) verið úthlutað né bókstöfunum Ð, X og Ö, þar sem þeir geta auðveldlega valdið ruglingi og þar með aukið hættu á ógildingu atkvæða – einkum utankjörfundaratkvæða.

Samkvæmt 2. mgr. 38. gr. laga nr. 24/2000 ákveður ráðuneytið bókstaf nýrra samtaka að fengnum óskum þeirra og með hliðsjón af listabókstöfum annarra stjórnmálasamtaka í undangengnum kosningum.

Er rétt að 300 undirskriftir skuli fylgja með tilkynningu um listabókstaf?

Það er rétt. Í 2. mgr. 38. gr. laga um kosningar til Alþingis nr. 24/2000 kemur fram að hyggist stjórnmálasamtök sem ekki hafa skráðan listabókstaf bjóða fram lista, skuli það tilkynnt ráðuneytinu eigi síðar en þremur sólarhringum áður en framboðsfrestur rennur út, þ.e. kl. 12. á hádegi þann 13. október nk. Tilkynningin skal undirrituð af a.m.k. 300 kjósendum. Hún skal dagsett og skal greina nafn kjósanda, kennitölu hans og heimili. Rétt er að taka fram að ráðuneytið getur ekki tekið tilkynningu um listabókstaf til formlegrar meðferðar fyrr en fyrir liggur undirritun 300 kjósenda.

Þarf heiti nýrra stjórnmálasamtaka að uppfylla sérstök skilyrði? 

Í 2. mgr. 38. gr. laga um kosningar til Alþingis nr. 24/2000 kemur fram að heiti nýrra stjórnmálasamtaka megi ekki vera þannig að ætla megi að villst verði á því og heiti samtaka sem eru á skrá skv. 1. mgr. 38. gr. 

Hversu marga meðmælendur þarf til stuðnings framboðslista í hverju kjördæmi fyrir sig?

Í 32. gr. laga um kosningar til Alþingis nr. 24/2000 kemur fram að framboðslista skuli fylgja yfirlýsing um stuðning við listann frá kjósendum í hlutaðeigandi kjördæmi. Tilgreina skal nafn meðmælanda, kennitölu hans og heimili. Fjöldi meðmælenda skal vera margfeldi af þingsætatölu kjördæmisins og talnanna 30 að lágmarki og 40 að hámarki. Sem dæmi má nefna að Suðurkjördæmi hefur 10 þingsæti. Meðmælendur fyrir Suðurkjördæmi skulu því vera á bilinu 300-400.

Má sami aðili skrifa undir umsókn um listabókstaf og á meðmælendalistum framboðsins?

Já.