Framboðslistar, kjörgengi og listabókstafir

Kjörgengi

Samkvæmt stjórnarskránni er kjörgengur við kosningar til Alþingis hver sá ríkisborgari sem kosningarétt á til þeirra og hefur óflekkað mannorð. Hæstaréttardómarar eru þó ekki kjörgengir.

Um óflekkað mannorð segir í lögum um kosningar til Alþingis: Enginn telst hafa óflekkað mannorð sem er sekur eftir dómi um verk sem er svívirðilegt að almenningsáliti nema hann hafi fengið uppreist æru sinnar. Dómur fyrir refsivert brot hefur ekki flekkun mannorðs í för með sér nema sakborningur hafi verið fullra 18 ára að aldri er hann framdi brotið og refsing sé fjögurra mánaða fangelsi óskilorðsbundið hið minnsta eða öryggisgæsla sé dæmd.

Listabókstafir

Dómsmálaráðuneytið heldur skrá um listabókstafi stjórnmálasamtaka sem buðu fram lista við síðustu almennar alþingiskosningar. Skrána skal birta með auglýsingu eigi síðar en átta vikum fyrir hverjar almennar alþingiskosningar en séu kosningar fyrirskipaðar með svo stuttum fyrirvara að þetta verði ekki gert er auglýsingin birt innan þriggja sólarhringa.

Hyggist stjórnmálasamtök sem hafa ekki skráðan listabókstaf bjóða fram lista við alþingiskosningar skal það tilkynnt dómsmálaráðuneytinu eigi síðar en þremur sólarhringum áður en framboðsfrestur rennur út, þ.e. eigi síðar en á hádegi þriðjudaginn 10. október 2017. Tilkynningin skal undirrituð af a.m.k. 300 kjósendum. Hún skal dagsett og skal greina nafn kjósanda, kennitölu hans og heimili.

Heiti nýrra stjórnmálasamtaka má ekki vera þannig að ætla megi að villst verði á því og heiti samtaka sem eru á skrá. Ráðuneytið ákveður bókstaf nýrra samtaka að fengnum óskum þeirra og með hliðsjón af listabókstöfum annarra stjórnmálasamtaka í undangengnum kosningum.

Framboðslistar

Á framboðslista skulu vera nöfn tvöfalt fleiri frambjóðenda en nemur þingsætum í kjördæminu. Tilgreina þarf skýrlega nöfn frambjóðenda, kennitölu, stöðu eða starfsheiti og heimili til þess að enginn vafi geti leikið á því hverjir eru í kjöri. Listanum skal fylgja skrifleg yfirlýsing allra þeirra sem á honum eru um að þeir hafi leyft að setja nöfn sín á listann.

Framboðslista skal og fylgja skrifleg yfirlýsing um stuðning við listann frá kjósendum í hlutaðeigandi kjördæmi. Yfirlýsingin þarf að bera með sér fyrir hvaða stjórnmálasamtök listinn er boðinn fram. Tilgreina skal nafn meðmælanda, kennitölu hans og heimili. Fjöldi meðmælenda skal vera margfeldi af þingsætatölu kjördæmisins og talnanna 30 að lágmarki og 40 að hámarki. Meðmælandi má aðeins mæla með einum lista við sömu alþingiskosningar.

Umboðsmenn

Hverjum framboðslista skal fylgja til yfirkjörstjórnar skrifleg tilkynning frá frambjóðendum listans um það hverjir tveir menn séu umboðsmenn listans. Ef umboðsmenn listans eru ekki tilgreindir eða nauðsynjar hamla umboðsmanni eru frambjóðendur í aðalsætum hver um sig réttir umboðsmenn hans. Þessir umboðsmenn gæta réttar lista þeirra sem þeir eru fyrir við skoðun og úrskurð listanna. Þeir gefa þær upplýsingar um listana er yfirkjörstjórn óskar. Þeim er heimilt að vera viðstaddir eða gefa öðrum umboð til að vera viðstaddir kosningar á einstökum kjörstöðum og við talningu atkvæða.

Móttaka framboða

Yfirkjörstjórnir taka á móti framboðum, hver í sínu kjördæmi, sem berast skulu eigi síðar en kl. 12 á hádegi föstudaginn 13. október 2017. Ef yfirkjörstjórn berst listi með fleiri nöfnum en tilskilið er, þá nemur hún burt af listanum öftustu nöfnin sem eru umfram tilskilda tölu. Sama gildir ef yfirkjörstjórn berst framboðslisti þar sem nafn manns stendur án þess að skriflegt leyfi hans fylgi með eða ef maður hefur skriflega leyft nafn sitt á fleiri en einum lista. Ef yfirkjörstjórn verður vör við að sami kjósandi er meðmælandi með fleiri en einu framboði, skal hún ekki telja hann meðmælanda neins þeirra.

Úrskurður um gildi framboðslista

Daginn eftir að framboðsfrestur rennur út, þ.e. laugardaginn 14. október 2017, halda yfirkjörstjórnir fundi þar sem úrskurðað er um gildi framboðslista í viðkomandi kjördæmi. Finnist gallar er umboðsmönnum lista gefinn kostur á að leiðrétta þá og má veita frest í því skyni eftir því sem tími og atvik leyfa. Ef gallar sem yfirkjörstjórn hefur bent á eru ekki leiðréttir innan tilsetts frests kveður hún upp úrskurð um hvort listi skuli fyrir það teljast ógildur. Úrskurði yfirkjörstjórnar má umboðsmaður skjóta til landskjörstjórnar innan sólarhrings frá því hann er kveðinn upp.

Merking framboðslista með bókstaf

Yfirkjörstjórn merkir síðan framboðslista með bókstaf með hliðsjón af auglýsingu dómsmálaráðuneytisins um listabókstafi stjórnmálasamtaka. Þegar merkingu framboðslista er lokið sendir hún þá til landskjörstjórnar ásamt öllum gögnum sem þeim fylgdu, en landskjörstjórn tekur þá listana til meðferðar og úrskurðar um merkingar listanna ef þörf krefur. Landskjörstjórn endursendir síðan yfirkjörstjórn listana jafnframt því sem hún sendir dómsmálaráðuneytinu listana eins og þeir eru endanlega birtir.