Athugið: Þessar síður fjalla um alþingiskosningarnar 27. apríl 2013.

Helstu dagsetningar

Helstu dagsetningar í aðdraganda alþingiskosninganna 27. apríl 2013

 2. mars
Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar má hefjast hjá kjörstjórum innan lands og utan.
 23. mars Viðmiðunardagur kjörskrárstofns sem Þjóðskrá Íslands gerir.
 30. mars Landskjörstjórn auglýsir, eigi síðar en þennan dag, mörk Reykjavíkurkjördæmanna. Jafnframt ákveður landskjörstjórn í hvoru kjördæmanna kjósendur búsettir erlendis, sem síðast áttu lögheimili í Reykjavík, skuli vera miðað við fæðingardag þeirra.
 6. apríl
Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar hjá kjörstjórum innan lands má hefjast á sjúkrahúsum, dvalarheimilum aldraðra, stofnunum fyrir fatlaða, fangelsum og í heimahúsum fyrir kjósendur vegna sjúkdóma, fötlunar og barnsburðar. Ósk um að greiða atkvæði í heimahúsi skal hafa borist kjörstjóra eigi síðar en 23. apríl kl. 16.
 9. apríl Stjórnmálasamtök sem hafa ekki skráðan listabókstaf hjá innanríkisráðuneytinu, en hyggjast bjóða fram við alþingiskosningarnar, skulu tilkynna það ráðuneytinu eigi síðar en þremur sólarhringum áður en framboðsfrestur rennur út kl. 12 á hádegi. Ráðuneytið birtir þegar með auglýsingu breytingar og viðauka við fyrri auglýsingu um listabókstafi stjórnmálasamtaka og tilkynnir landskjörstjórn og yfirkjörstjórnum.
 12. apríl Framboðum skal skila til hlutaðeigandi yfirkjörstjórna eigi síðar en kl. 12 á hádegi.
 15. apríl  Innanríkisráðuneytið auglýsir, eigi síðar en þennan dag, framlagningu kjörskráa í Ríkisútvarpi (hljóðvarpi og sjónvarpi) og dagblöðum. Í auglýsingunni komi fram að þeir sem vilja koma að athugasemdum við kjörskrá skuli senda þær hlutaðeigandi sveitarstjórn.
 17. apríl Sveitarstjórnir skulu leggja kjörskrár fram almenningi til sýnis á skrifstofu sveitarstjórnar eða öðrum hentugum stað eigi síðar en þennan dag. Kjörskráin skal liggja frammi á almennum skrifstofutíma til kjördags. Leiðréttingar má gera á kjörskrá fram á kjördag.
 17. apríl Landskjörstjórn auglýsir, eigi síðar en þennan dag, í Lögbirtingablaði, blöðum og Ríkisútvarpi (hljóðvarpi og sjónvarpi) fyrir hvaða stjórnmálasamtök framboðslistar eru bornir fram við kosningarnar og tilgreinir bókstaf hvers lista. Jafnframt sendir landskjörstjórn innanríkisráðuneytinu listana eins og þeir eru birtir.
 27. apríl  KJÖRDAGUR