Athugið: Þessar síður fjalla um alþingiskosningarnar 27. apríl 2013.

Táknmál

Táknmálsfrétt

Kosningar til Alþingis 27. apríl 2013

Kosið verður til Alþingis 27. apríl næstkomandi. Framkvæmd alþingiskosninga er samstarfsverkefni nokkurra opinberra aðila. Má þar helst nefna innanríkisráðuneytið, utanríkisráðuneytið, landskjörstjórn, sveitarstjórnir, Þjóðskrá Íslands, sýslumenn og kjörstjórnir. Þessir aðilar skipta með sér verkum og vinna að því að heildarframkvæmd kosninga fari fram með skýrum og traustum hætti.

Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar

Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar er hafin.

Hægt er að greiða atkvæði hjá sýslumönnum um allt land og auglýsa þeir hvar og hvenær atkvæðagreiðsla getur farið fram og á þann hátt á hverjum stað sem venja er þar að birta opinberar auglýsingar. Auk þess má greiða atkvæði á sjúkrahúsum, dvalar- og vistheimilum, fangelsum og heimahúsum í samráði við kjörstjóra á hverjum stað. Ítarlegar upplýsingar er einnig að finna á vef sýslumanna, syslumenn.is.

Utankjörfundaratkvæðagreiðsla erlendis vegna alþingiskosninganna fer fram í öllum sendiráðum Íslands erlendis og aðalræðisskrifstofum Íslands í New York, Winnipeg og Þórshöfn í Færeyjum. Einnig er unnt að kjósa utan kjörfundar eftir samkomulagi hjá kjörræðismönnum Íslands erlendis. Hægt er að sjá lista yfir þá á vef utanríkisráðuneytisins, utanrikisraduneyti.is.

Innanríkisráðuneytið hefur látið gera myndbönd til leiðbeiningar um atkvæðagreiðslu utan kjörfundar á íslensku og ensku. Myndböndin eru með texta og er tengil á þau að finna efst á forsíðunni hér á kosningavefnum. 

Kjörskrá

Enginn getur neytt kosningarréttar nema að nafn hans sé á kjörskrá þegar kosning fer fram. Á kjörskrá eru teknir þeir íbúar sveitarfélags sem eiga kosningarrétt samkvæmt lögum um kosningar til Alþingis. Þeir þurfa að hafa náð 18 ára aldri þegar kosning fer fram, vera íslenskir ríkisborgarar og vera skráðir með lögheimili í sveitarfélagi samkvæmt íbúaskrá þjóðskrár eins og hún er fimm vikum fyrir kjördag, eða laugardaginn 23. mars 2013. Einnig eru teknir á kjörskrá íslenskir ríkisborgarar sem búa erlendis og hafa náð 18 ára aldri og uppfylla nánar tiltekin skilyrði.

Kjósendur geta kannað hvar þeir eru á kjörskrá hér á vefnum, sjá á forsíðu. Hægt er að skoða rafræna kjörskrá hér á vefnum. Með því að slá inn kennitölu kjósanda kemur upp nafn hans, lögheimili og sveitarfélag. Í mörgum tilvikum birtast einnig upplýsingar um kjörstað og kjördeild. 

Kjörstaðir

Atkvæðagreiðslan fer fram á sömu kjörstöðum og almennt er notast er við í kosningum. Sveitarfélög munu auglýsa nánar um kjörstaðina skömmu fyrir kjördag, m.a. hvenær þeir eru opnir, hvar þeir eru, hvernig skipt er í kjördeildir, o.fl.