Athugið: Þessar síður fjalla um forsetakosningar 25. júní 2016.


Aðrar kjörstjórnir sveitarfélaga

Í 2. mgr. 15. gr. laga um kosningar til Alþingis er sveitarstjórnum veitt heimild til að kjósa sérstakar kjörstjórnir. Það er borgaraleg skylda að taka sæti í kjörstjórn. Við ákveðnar aðstæður getur kjörstjórnarmaður þurft að víkja sæti, til dæmis ef til úrskurðar er mál sem varðar maka hans eða ættingja. Sérstakar kjörstjórnir skulu eins og aðrar kjörstjórnir halda gerðabók og bóka gerðir sínar.

Í fyrsta lagi er miðað við að ef kjördeildir eru fleiri en ein í sveitarfélagi geti sveitarstjórn kosið sérstaka þriggja manna kjörstjórn til að hafa umsjón með starfi undirkjörstjórna. Þessi sérstaka kjörstjórn samræmir þá störf undirkjörstjórna, auglýsir kosningu, annast skýrslugerð og fleira.

Í öðru lagi er gert ráð fyrir að þar sem kjördeildir eru fleiri en ein á sama kjörstað skuli sveitarstjórn kjósa þriggja manna hverfiskjörstjórn til að hafa með höndum stjórn undirkjörstjórna á kjörstaðnum.

Í þriðja lagi er mælt fyrir um að ef slíkir kjörstaðir, sem rætt er um í 2. lið hér að ofan, eru fleiri en einn í sveitarfélagi skuli sveitarstjórn kjósa sérstaka yfirkjörstjórn sveitarfélagsins.

Allar þessar kjörstjórnir skulu reiðubúnar að koma fyrirvaralaust á fund á kjördag til ákvarðana og úrskurða í sambandi við kosninguna ef með þarf.

Kjörgögn

Móttaka kjörgagna
Þar sem kosnar eru sérstakar kjörstjórnir getur yfirkjörstjórn afhent þeim kjörseðla óflokkaða fyrir kjördeildir og annast þær þá afhendingu kjörseðlanna til undirkjörstjórna.

Atkvæðagreiðsla á kjörfundi

Flokkun utankjörfundaratkvæða fyrir kjördag
Sérstakri kjörstjórn er heimilt að hefja flokkun utankjörfundaratkvæða daginn fyrir kjördag þannig að atkvæðisbréf verði afhent í rétta kjördeild á kjördag.

Vottorð um afsal kosningarréttar
Kjósandi getur afsalað sér kosningarétti á kjördag í kjördeild þar sem nafn hans er á kjörskrá með því að undirrita beiðni á sérstakt eyðublað og að kjörstjórn á þeim kjörstað sem kjósandi óskar að neyta atkvæðisréttar staðfesti slíkt afsal með undirritun oddvita eða tveggja kjörstjórnarmanna. Einnig getur kjósandi afsalað sér kosningarétti fyrir kjördag en slíkt er þó mjög fátítt. Vottorðið skal síðan fylgja í frumriti til yfirkjörstjórnar þeirrar kjördeildar þar sem það er lagt fram og notað.

Um störf sérstakra kjörstjórna við kosningaathöfnina sjálfa er vísað til umfjöllunar í kafla um undirkjörstjórnir.