Athugið: Þessar síður fjalla um forsetakosningar 25. júní 2016.


Kjörgengi og framboð

Samkvæmt stjórnarskránni er hver 35 ára gamall maður, sem fullnægir skilyrðum kosningaréttar til Alþingis, að fráskildu búsetuskilyrðinu, kjörgengur til forseta Íslands. Samkvæmt lögum um framboð og kjör forseta Íslands sker Hæstiréttur Íslands úr ef ágreiningur er um kjörgengi frambjóðanda.

Framboð

Framboðum til forsetakjörs skal skila til innanríkisráðuneytisins, ásamt samþykki forsetaefnis, nægilegri tölu meðmælenda og vottorðum yfirkjörstjórna um að meðmælendur séu kosningabærir, eigi síðar en fimm vikum fyrir kjördag, fyrir miðnætti föstudaginn 20. maí 2016.

Gera má ráð fyrir því að yfirkjörstjórnir auglýsi í byrjun maí hvar og hvenær þær taka við meðmælendalistum til staðfestingar á kosningabærni meðmælenda.

Forsetaefni skal hafa meðmæli minnst 1500 kosningabærra manna, en mest 3000, er skiptist þannig eftir landsfjórðungum:

Úr Sunnlendingafjórðungi (þ.e. Skaftárhreppur, Mýrdalshreppur, Rangárþing eystra, Rangárþing ytra, Ásahreppur, Vestmannaeyjabær, Flóahreppur, Sveitarfélagið Árborg, Skeiða- og Gnúpverjahreppur, Hrunamannahreppur, Bláskógabyggð, Grímsnes- og Grafningshreppur, Hveragerðisbær, Sveitarfélagið Ölfus, Grindavíkurbær, Sandgerðisbær, Sveitarfélagið Garður, Reykjanesbær, Sveitarfélagið Vogar, Hafnarfjarðarkaupstaður, Garðabær, Kópavogsbær, Reykjavíkurborg, Seltjarnarnesbær, Mosfellsbær, Kjósarhreppur, Akraneskaupstaður, Hvalfjarðarsveit, Skorradalshreppur og Borgarbyggð sunnan Hvítár) séu minnst 1.215 meðmælendur, en mest 2.430.

Úr Vestfirðingafjórðungi (þ.e. Borgarbyggð vestan Hvítár, Eyja- og Miklaholtshreppur, Snæfellsbær, Grundarfjarðarbær, Helgafellssveit, Stykkishólmsbær, Dalabyggð, Reykhólahreppur, Vesturbyggð, Tálknafjarðarhreppur, Bolungarvíkurkaupstaður, Ísafjarðarbær, Súðavíkurhreppur, Árneshreppur, Kaldrananeshreppur, Strandabyggð og Húnaþing vestra vestan Hrútafjarðar) séu minnst 62 meðmælendur, en mest 124.

Úr Norðlendingafjórðungi (þ.e. Húnaþing vestra norðan Hrútafjarðar, Húnavatnshreppur, Blönduósbær, Sveitarfélagið Skagaströnd, Skagabyggð, Sveitarfélagið Skagafjörður, Akrahreppur, Fjallabyggð, Dalvíkurbyggð, Hörgársveit, Akureyrarkaupstaður, Eyjafjarðarsveit, Svalbarðsstrandarhreppur, Grýtubakkahreppur, Þingeyjarsveit, Skútustaðahreppur, Norðurþing vestan Reykjaheiðar og Tjörneshreppur) séu minnst 163 meðmælendur, en mest 326.

Úr Austfirðingafjórðungi (þ.e. Norðurþing austan Reykjaheiðar, Svalbarðshreppur, Langanesbyggð, Vopnafjarðarhreppur, Fljótsdalshreppur, Fljótsdalshérað, Borgarfjarðarhreppur, Seyðisfjarðarkaupstaður, Fjarðabyggð, Breiðdalshreppur, Djúpavogshreppur og Sveitarfélagið Hornafjörður) séu minnst 60 meðmælendur, en mest 120.

Lög um framboð og kjör forseta Íslands kveða ekki nánar á um hvernig meðmæli skuli úr garði gerð. Í lögunum er þó tekið fram að við undirbúning kosningaathafnarinnar skuli fara samkvæmt lögum um kosningar til Alþingis eftir því sem við á. Í 1. mgr. 32. gr. og 2. mgr. 33. gr. þeirra laga er gert ráð fyrir skriflegri yfirlýsingu meðmælenda um stuðning við framboðslista og að sami kjósandi megi ekki mæla með nema einum lista við sömu kosningar. Við forsetaframboð mun því sama gilda um forsetaefni.

Með hliðsjón af þessu hefur innanríkisráðuneytið látið gera eyðublöð fyrir meðmælendur til undirritunar sem forsetaefni geta nýtt sér við framboðið. Sér eyðublað er gert fyrir hvern landsfjórðung og má nálgast þau hér að neðan:

Forsetaefni geta  jafnframt útbúið eign eyðublöð. Tilgreina skal nafn meðmælanda, kennitölu hans og heimili og auk þess þarf að koma skýrt fram að þeir sem undirriti skjalið séu með því að mæla með framboði tiltekins einstaklings við forsetakjör 25. júní 2016.