Athugið: Þessar síður fjalla um forsetakosningar 25. júní 2016.


Fréttir

Fjöldi kjósenda

21.6.2016

Sveitarstjórnir semja kjörskrár eftir kjörskrárstofnum sem Þjóðskrá Íslands lætur þeim í té. Á þeim stofnum sem hún hefur unnið vegna forsetakjörsins 25. júní 2016 eru 245.004 kjósendur. Fjöldi karla og kvenna er svo til jafn. Konur eru 122.870 en karlar 122.134.

Við forsetakjör 30. júní 2012 voru 235.743 kjósendur á kjörskrá. Fjölgunin nemur því 9.261 eða 3,9%.

Tölulegar upplýsingar í kjörskrárstofni endurspegla ekki endanlega kjörskrá en þar munar þó sáralitlu. Við endanlega tölu kjósenda á kjörskrá, sem birt verður í skýrslu Hagstofu Íslands um kosningarnar, verður tekið mið af tölu látinna og þeirra sem fá nýtt ríkisfang eftir að kjörskrárstofnar voru unnir, svo og breytinga sem verða á kjörskrá vegna leiðréttinga.

Kjósendur með lögheimili erlendis teljast samkvæmt kjörskrárstofnum Þjóðskrár Íslands 13.077 eða 5,3% kjósenda. Hefur þeim fjölgað um 820 frá síðasta forsetakjöri eða um 6,7%. Kjósendum með lögheimili hér á landi fjölgar um 8.441 eða 3,8%. Þeir sem fá nú að kjósa í fyrsta sinn vegna aldurs eru 17.822 eða 7,3% kjósenda.