Athugið: Þessar síður fjalla um forsetakosningar 25. júní 2016.


Fréttir

Um 20 þúsund heimsóttu kosning.is á kjördag

27.6.2016

Kosningavefurinn var mikið heimsóttur í aðdraganda forsetakosninganna og á kjördag, 25. júní. Alls komu ríflega 40.000 gestir inn á vefinn síðustu vikuna fyrir kosningar, þar af tæplega 20 þúsund á kjördag, samkvæmt talningu Google Analytics. 

Flestir sem heimsóttu vefinn síðustu daga skoðuðu upplýsingar um kjörskrá, kjörstaði og atkvæðagreiðslu utan kjörfundar. Kjósendur gátu kannað hvar þeir voru á kjörskrá í forsetakosningunum og birtar voru upplýsingar um kjörstaði um allt land. 

Á kosningavefnum, sem uppfærður er fyrir hverjar kosningar, er einnig að finna ítarlegar upplýsingar og fróðleik um framkvæmd kosninga, svo sem leiðbeiningarmyndbönd um atkvæðagreiðslu utan kjörfundar og á kjördag, sem ráðuneytið hefur látið vinna. Þá eru á vefnum upplýsingar á táknmáli auk auðlesins efnis um kosningarnar.