Athugið: Þessar síður fjalla um forsetakosningar 25. júní 2016.


Talning atkvæða

Í 9.-11. gr. laga um framboð og kjör forseta Íslands nr. 36/1945 eru ákvæði um hvernig talningu atkvæða, gildi kjörseðla og meðferð kjörseðla sem ágreiningur hefur verið um, er háttað við forsetakjör.

Að forsetakosningu lokinni senda undirkjörstjórnir oddvita yfirkjörstjórnar tafarlaust atkvæðakassana og ónotaða og ónýtta kjörseðla í þeim umbúðum er segir í lögum um alþingiskosningar. Á áður auglýstum stað og stund opnar yfirkjörstjórn atkvæðakassana,og fer síðan talning atkvæða fram með sama hætti og segir í lögum um kosningar til Alþingis, svo og um það, hvort kjörseðill telst gildur eða ekki, og um meðferð ágreiningsseðla.

Að lokinni talningu atkvæða sendir yfirkjörstjórn Hæstarétti Íslands eftirrit af gerðabók sinni ásamt þeim kjörseðlum, sem ágreiningur hefur verið um.

Þegar Hæstiréttur hefur fengið í hendur eftirrit gerðabóka allra yfirkjörstjórna og ágreiningsseðla boðar hann forsetaefni eða umboðsmenn þeirra til fundar þar sem hann úrskurðar um gildi ágreiningsseðlanna, lýsir úrslitum kosninganna og gefur út kjörbréf handa því forsetaefni sem hæstri atkvæðatölu hefur náð.

Hæstiréttur sendir forsætisráðherra og forseta Alþingis staðfest eftirrit af kjörbréfi forseta.