Athugið: Þessar síður fjalla um forsetakosningar 30. júní 2012.
        Smellið hér til að skoða upplýsingar í tengslum við alþingiskosningar 29. október 2016


Kjör forseta Íslands 2012

Kjörtímabil forseta Íslands rennur út 31. júlí 2012. Í samræmi við lög um framboð og kjör forseta Íslands skal forsetakjör fyrir næsta fjögurra ára tímabil fara fram laugardaginn 30. júní 2012.

Samkvæmt stjórnarskránni getur hver 35 ára gamall maður, sem fullnægir skilyrðum kosningarréttar til Alþingis og skilyrðum um búsetu, boðið sig fram til að gegna embætti forseta Íslands.

Framboðum til forsetakjörs skal skila til innanríkisráðuneytisins fyrir miðnætti föstudaginn 25. maí 2012. Framboðunum skal fylgja samþykki þess sem býður sig fram, nægilegur fjöldi meðmælenda sem vottaður skal af viðkomandi yfirkjörstjórn um að meðmælendurnir séu kosningarbærir. Eigi síðar en 31. maí 2012 skal innanríkisráðuneytið auglýsa í útvarpi og Lögbirtingablaði hverjir séu í kjöri til forsetaembættisins.

Kosningarréttur

Kosningarrétt við forsetakjör eiga þeir kjósendur sem eiga kosningarrétt til Alþingis.

Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar

Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar skal hefjast svo fljótt sem kostur er eftir að kosning hefur verið auglýst, þó ekki fyrr en átta vikum fyrir kjördag.

Hægt er að greiða atkvæði hjá sýslumönnum um allt land og auglýsa þeir hvar og hvenær atkvæðagreiðsla getur farið fram og á þann hátt á hverjum stað sem venja er þar að birta opinberar auglýsingar. Auk þess má greiða atkvæði á sjúkrahúsum, dvalar- og vistheimilum, fangelsum og heimahúsum í samráði við kjörstjóra á hverjum stað.

Utankjörfundaratkvæðagreiðsla erlendis vegna forsetakosninganna fer fram í öllum sendiráðum Íslands erlendis og aðalræðisskrifstofum Íslands í New York,  Winnipeg og Þórshöfn í Færeyjum. Einnig er unnt að kjósa utan kjörfundar eftir samkomulagi hjá kjörræðismönnum Íslands erlendis, samanber meðfylgjandi lista. Búist er við því að kosið verði á u.þ.b. 235 stöðum í 84 löndum.

Kjörskrá

Enginn getur neytt kosið nema að nafn hans sé á kjörskrá þegar kosning fer fram. Á kjörskrá eru teknir þeir íbúar sveitarfélags sem eiga kosningarrétt samkvæmt lögum um kosningar til Alþingis. Þeir þurfa að hafa náð 18 ára aldri þegar kosning fer fram, vera íslenskir ríkisborgarar og vera skráðir með lögheimili í sveitarfélaginu samkvæmt íbúaskrá þjóðskrár eins og hún er þremur vikum fyrir kjördag, eða laugardaginn 9. júní 2012. Einnig eru teknir á kjörskrá íslenskir ríkisborgarar sem búa erlendis og hafa náð 18 ára aldri og uppfylla nánar tiltekin skilyrði.

Kjörstaðir

Atkvæðagreiðslan fer fram á sömu kjörstöðum og notast er við í almennum kosningum. Sveitarfélög munu auglýsa nánar um kjörstaðina skömmu fyrir atkvæðagreiðsluna, m.a. hvenær þeir eru opnir, hvar þeir eru, hvernig skipt er í kjördeildir, o.fl.  

Kjörstjórnir

Undirkjörstjórnir og yfirkjörstjórnir eru hinar sömu og við alþingiskosningar, en auk þessara kjörstjórna gegnir Hæstiréttur Íslands sérstöku hlutverki við forsetakjör.

Hæstiréttur Íslands

Allar yfirkjörstjórnir senda Hæstarétti eftirrit úr gerðabókum ásamt ágreiningsseðlum. Hæstiréttur boðar forsetaefni eða umboðsmenn þeirra til fundar þar sem rétturinn úrskurðar um gildi ágreiningsseðlanna, lýsir úrslitum kosninganna og gefur út kjörbréf handa því forsetaefni, sem hæstri atkvæðatölu hefur náð.