Athugið: Þessar síður fjalla um forsetakosningar 30. júní 2012.
        Smellið hér til að skoða upplýsingar í tengslum við alþingiskosningar 29. október 2016


Óleyfilegur kosningaáróður og kosningaspjöll

Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. laga um framboð og kjör forseta Íslands nr. 36/1945 gilda refsiákvæði XX. kafla (117. gr.) laga um kosningar til Alþingis við forsetakjör að svo miklu leyti sem við getur átt.

Hvað er óleyfilegur kosningaáróður og kosningaspjöll?

  1. Að bera á mann fé eða fríðindi til að hafa áhrif á hvort hann greiðir atkvæði eða hvernig hann greiðir atkvæði, að svipta mann eða ógna manni með sviptingu atvinnu eða hlunninda í sama skyni, að heita á mann fé eða fríðindum ef kosning fari svo eða svo, að torvelda öðrum sókn á kjörfund eða til utankjörfundarkjörstaðar, svo og að beita þvingunarráðstöfunum í sambandi við kosningar.
  2. Að reyna að hafa áhrif á atkvæðagreiðslu, hvort heldur er með ræðuhöldum, prentuðum eða skriflegum ávörpum eða auglýsingum, með því að bera eða hafa uppi merki stjórnmálasamtaka eða önnur auðkenni er tengjast hinum ólíku sjónarmiðum sem kosið er um á sjálfum kjörstaðnum, þ.e. í kjörfundarstofu, kjörklefa eða annars staðar í eða á þeim húsakynnum þar sem kosning fer fram, svo og í næsta nágrenni.
  3. Að hafa merki stjórnmálasamtaka eða önnur auðkenni er tengjast hinum ólíku sjónarmiðum sem kosið er um á bifreiðum meðan kjörfundur stendur yfir, svo og að nota gjallarhorn til áróðurs á sama tíma.
  4. Að gefa ónákvæmar eða villandi upplýsingar um sig eða aðra, svo sem um nafn, aldur, búsetu í landinu, heimilisfang eða annað, sem leiðir eða leitt getur til þess að maður verði settur á kjörskrá sem ekki á rétt á að vera þar, eða maður ekki settur á kjörskrá eða tekinn út af kjörskrá sem á rétt á að vera þar, eða maður verði látinn greiða atkvæði í stað annars manns er stendur á kjörskrá; hér undir heyrir sérstaklega ef maður telur sig til málamynda eiga lögheimili í kjördæmi, aðeins til þess að verða settur þar á kjörskrá.
  5. Að gefa út villandi kosningaleiðbeiningar.
  6. Að rangfæra atkvæðagreiðslu, hvort heldur er með því að eyðileggja eða breyta atkvæði sem greitt hefur verið, eða á annan hátt.