Athugið: Þessar síður fjalla um sveitarstjórnarkosningar 31. maí 2014.


Fréttir

Að eiga orðið

Þátttaka og reynsla kvenna af sveitarstjórnum

24.2.2014

Föstudaginn 28. febrúar 2014 efnir RIKK – Rannsóknastofnun í jafnréttisfræðum við Háskóla Íslands til málþings í samvinnu við Jafnréttisstofu um þátttöku og reynslu kvenna af sveitarstjórnum. Málþingið ber yfirskriftina „Að eiga orðið“ og fer fram kl. 14.00–16.00 í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands. Málþingið er haldið í tilefni af sveitarstjórnarkosningunum í maí 2014.

Stjórnmálaþátttaka kvenna á vettvangi sveitarstjórna hefur aukist á undanförnum árum. Í byrjun 21. aldarinnar var hlutur kvenna í sveitarstjórnum 31,5% en eftir síðustu kosningar eru konur um 40% kjörinna sveitarstjórnarfulltrúa. Á málþinginu verður fjallað um sögulega þátttöku kvenna í sveitarstjórnum og greint frá niðurstöðum nýrrar rannsóknar um viðhorf og reynslu kvenna af þátttöku í  sveitarstjórnum. Þá verður  rætt um ólíkar framboðsaðferðir stjórnmálaflokka og velt upp þeirri spurningu hvort þær hafi haft áhrif á gengi kvenna á listum þeirra flokka sem bjóða fram til sveitarstjórnarkosninga nú í vor. Að loknum erindum taka við pallborðsumræður með þátttöku sveitarstjórnarkvenna.

Dagskrá:

  • Kristín Ástgeirsdóttir, sagnfræðingur og framkvæmdastýra Jafnréttisstofu. Opnun: Stjórnmálaþátttaka kvenna á vettvangi sveitarstjórna
  • Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra. Ávarp: Plássfreka kynið
  • Auður Styrkársdóttir, stjórnmálafræðingur og forstöðukona Kvennasögusafns Íslands: „Með æfðari hagsýni, nærgætni og næmari tilfinningum.“ Kosningarétturinn 1882 og framlag kvenna til íslenskra stjórnmála
  • Bergljót Þrastardóttir, sérfræðingur hjá Jafnréttisstofu: „Ég veit að þetta eru kynjaveggir.“ Viðhorf og reynsla kvenna í pólitísku starfi á sveitarstjórnarstiginu
  • Rósa G. Erlingsdóttir, stjórnmálafræðingur: Kynjaskekkja í íslenskum stjórnmálum – skipta framboðsaðferðir máli?

- Pallborðsumræður


Til baka Senda grein