Athugið: Þessar síður fjalla um sveitarstjórnarkosningar 31. maí 2014.


Bundnar hlutfallskosningar og óbundnar kosningar

Bundnar hlutfallskosningar og óbundnar kosningar

Bundnar hlutfallskosningar

Bundnar kosningar eru listakosningar þar sem kosning er bundin við framboð á listum og fulltrúar á hverjum lista ná kjöri í hlutfalli við það atkvæðamagn sem listinn fær.

Óbundnar kosningar

Óbundnar kosningar eru persónukosningar þar sem kosning er ekki bundin við framboð. Allir kjósendur eru í kjöri nema þeir sem löglega eru undanþegnir skyldu til að taka kjöri og hafa fyrir fram skorast undan því.

Hvaða tegund kosninga skal nota hverju sinni

Óbundin kosning fer einungis fram ef enginn framboðslisti kemur fram áður en framboðsfresti lýkur eða ef of fá nöfn eru á framkomnum listum til að sveitarstjórn verði fullskipuð.

Nánar um óbundnar kosningar

Við óbundna kosningu eru allir kjósendur í sveitarfélaginu í kjöri með þeirri undantekningu að þeir sem setið hafa í sveitarstjórn eitt kjörtímabil eða lengur geta skorast undan kjöri, enda tilkynni þeir yfirkjörstjórn það fyrir lok framboðsfrests, þ.e. fyrir 10. maí 2014, sbr. 2. mgr. 18. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna. Skal yfirkjörstjórn auglýsa með viðeigandi hætti nöfn þeirra sem skorast hafa undan endurkjöri. Öllum öðrum sem eru kjörgengir, heilir og hraustir og yngri en 65 ára, er skylt að taka kjöri í sveitarstjórn við óbundna kosningu.

Kjörseðill við óbundna kosningu er mjög frábrugðinn kjörseðli við bundnar hlutfallskosningar. Kjörseðillinn er tvískiptur og er efri hluti seðilsins auðar línur (að jafnaði fimm) fyrir nöfn og heimilisföng aðalmanna. Á neðri hluta seðilsins eru jafnmargar tölusettar línur fyrir nöfn og heimilisföng varamanna.

Atkvæðagreiðsla fer fram með þeim hætti að kjósandi skrifar (með prentstöfum) í kjörklefa á kjörseðilinn fullt nafn og heimilisfang aðalmanna á þann hluta kjörseðilsins sem ætlaður er fyrir kjör aðalmanna.

Á þann hluta seðilsins sem ætlaður er fyrir kjör varamanna skal kjósandi rita (með prentstöfum) nöfn varamanna og heimilisföng þeirra í þeirri röð sem hann kýs að þeir taki sæti allt að þeirri tölu sem kjósa á.

Í flestum sveitarfélögum þar sem kosið er óbundinni kosningu inniheldur rétt útfylltur kjörseðill nöfn fimm aðalmanna og fimm varamanna. Ef kjósandi ritar of mörg nöfn aðalmanna telst atkvæðið ógilt. Atkvæði skal hins vegar ekki meta ógilt af þeirri ástæðu einni að ekki er tilgreindur fullur fjöldi aðal- eða varamanna. Kjörstjórn ber því almennt að taka atkvæði gilt þótt þar séu til dæmis aðeins tilgreind nöfn fjögurra aðalmanna, svo fremi að ekki sé um aðrar ástæður að ræða sem leitt geta til ógildingar.

Er óbundin kosning flóknari en bundin hlutfallskosning?

Óbundin kosning er flóknari að því leyti að kjósandi verður helst að vera búinn að ákveða hvernig hann kýs áður en hann mætir á kjörstað til að geta ritað rétt nöfn og heimili þeirra aðal- og varamanna sem hann hyggst greiða atkvæði. Ekkert er því til fyrirstöðu að kjósandi riti slíkar upplýsingar á blað sér til minnis og hafi það sér til stuðnings í kjörklefa á meðan hann greiðir atkvæði. Með því móti þarf sjálf kosningarathöfnin ekki að verða flóknari en bundin hlutfallskosning.