Athugið: Þessar síður fjalla um sveitarstjórnarkosningar 31. maí 2014.


Kjörseðill

Kjörseðill

Kjörseðill við atkvæðagreiðslu utan kjörfundar

Kjörgögn til atkvæðagreiðslu utan kjörfundar eru: kjörseðill, kjörseðilsumslag, fylgibréf og sendiumslag, svo og stimplar með listabókstöfum.

Á kjörseðli og kjörseðilsumslagi skal prentað að um sé að ræða kjörseðil og kjörseðilsumslag. Fylgibréf og sendiumslag skulu þannig gerð að á þau megi auðveldlega rita þær upplýsingar sem mælt er fyrir um í lögunum. Innanríkisráðuneytið kveður nánar á um gerð þessara kjörgagna.

Innanríkisráðuneytið sér um gerð, útlit, frágang og prentun kjörseðla, kjörseðilsumslaga, fylgibréfa og sendiumslaga ásamt stimplum með listabókstöfum við atkvæðagreiðslu utan kjörfundar og sendingu þessara kjörgagna til sýslumanna og utanríkisráðuneytisins.

Utanríkisráðuneytið annast afgreiðslu kjörgagna erlendis til sendiráða, fastanefnda hjá alþjóðastofnunum, sendiræðisskrifstofa, kjörræðismanna eða annarra kjörstjóra sem ráðuneytið tilnefnir sérstaklega.

Kjörseðill við atkvæðagreiðslu á kjörfundi

Yfirkjörstjórnir sveitarfélaga sjá um gerð, útlit, frágang og prentun kjörseðla, sem notaðir verða á kjörfundi, og framsendingu þeirra til undirkjörstjórna.

Kjörseðlar til atkvæðagreiðslu á kjörfundi skulu vera úr haldgóðum pappír sem prent eða skrift sést ekki í gegnum, a.m.k. 125 g/m2 að þyngd, og skal skipta um lit kjörseðla við hverjar sveitarstjórnarkosningar.

Í fyrirsögn efst á kjörseðli skal tilgreina að um sé að ræða sveitarstjórnarkosningar í tilteknu sveitarfélagi, dagsetningu þeirra og ártal. Prenta skal framboðslista hvern við annars hlið í röð eftir bókstöfum þeirra og skal ætla hverjum lista um 6 sm breidd en lengd skal miðuð við fulla löglega tölu frambjóðenda. Niður undan bókstaf hvers lista, sem skal vera stór og greinilegur og standa yfir miðjum listanum, skulu vera nöfn frambjóðenda listans í réttri röð ásamt stöðu og heimili ef nauðsyn þykir til auðkenningar. Listarnir skulu aðgreindir með feitum langstrikum og skal að minnsta kosti 1/2 sm breitt bil vera fyrir framan nöfnin á hverjum lista.

Þess skal getið um hvern lista fyrir hvaða stjórnmálasamtök eða annað framboð hann er í kjöri á þann hátt að prenta með skýru letri neðan við listabókstafinn en ofan við nöfnin á listanum: Listi … (nafn stjórnmálasamtaka eða annars framboðs).

Ef um óbundnar kosningar er að ræða skal kjörseðill vera tvískiptur. Efri hluti kjörseðils skal ætlaður fyrir nöfn og heimilisföng aðalmanna en neðri hluti hans fyrir nöfn og heimilisföng varamanna. Á neðri hluta kjörseðils skal vera töluröð miðuð við fjölda þeirra sem kjósa á.

Kjörseðil skal brjóta saman þannig að óprentaða hliðin snúi út.