Athugið: Þessar síður fjalla um sveitarstjórnarkosningar 31. maí 2014.


Kæra vegna sveitarstjórnarkosninga

Kæra vegna sveitarstjórnarkosninga

Kosningakærur

  • Kæru skal afhenda hlutaðeigandi sýslumanni innan sjö daga frá því að lýst var úrslitum kosninga.
  • Sýslumaður skipar þriggja manna nefnd til að úrskurða í málinu.
  • Nefndin leitar umsagnar viðkomandi yfirkjörstjórnar sem skal skila umsögn innan viku.
  • Nefndin skal úrskurða innan viku frá því að umsögn berst.
  • Heimilt er að kæra úrskurð nefndarinnar til innanríkisráðuneytisins innan sjö daga.

Skilyrði til þess að kosningar verði úrskurðaðar ógildar

Í 94. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna er tekið fram að gallar á framboði eða kosningu leiði ekki til ógildis kosninga nema ætla megi að þeir hafi haft áhrif á úrslit kosninganna.

Áhrif úrskurðar um ógildi kosninga

Ef nefndin úrskurðar kosningar ógildar áður en fráfarandi sveitarstjórn skal víkja (ný sveitarstjórn tekur við störfum 15 dögum eftir kjördag) skal fráfarandi sveitarstjórn sitja þar til kosning hefur farið fram að nýju og úrskurðað hefur verið um gildi þeirra kosninga ef við á.

Ef nefndin úrskurðar kosningar gildar skal nýkjörin sveitarstjórn taka við störfum 15 dögum eftir kjördag jafnvel þó úrskurðurinn hafi verið kærður til innanríkisráðuneytisins eða málinu stefnt fyrir dómstóla.

Nú ógildir ráðuneytið kosningar eftir að nýkjörin sveitarstjórn hefur tekið við störfum og skal hún þá sitja þar til nýjar kosningar hafa farið fram og kærur sem fram kunna að koma hafa verið úrskurðaðar.

Aðgerðir eftir úrskurð um ógildi kosninga

Ef kosning er úrskurðuð ógild ber sitjandi sveitarstjórn í samráði við yfirkjörstjórn að boða til nýrra kosninga í sveitarfélaginu svo fljótt sem við verður komið. Ákvörðun skal liggja fyrir innan mánaðar.

Fari aukakosning/uppkosning fram innan sex mánaða frá fyrri kosningu skal kosið samkvæmt sömu kjörskrá. Fari kosning fram síðar skal gera nýja kjörskrá.