Athugið: Þessar síður fjalla um sveitarstjórnarkosningar 31. maí 2014.


Kosningaúrslit fundin

Kosningaúrslit fundin

Bundnar hlutfallskosningar

Fyrst eru talin öll atkvæði sem hver listi hefur hlotið og er þá fundin atkvæðatala hvers lista.

Þá þarf að finna hve margir frambjóðendur hafa náð kosningu sem aðalmenn af hverjum lista og er það gert með eftirfarandi aðferð:

  1. Deila skal atkvæðatölum listanna með tölunum 1, 2, 3, 4 o.s.frv. Útkomutölur eru skráðar fyrir hvern lista.
  2. Fyrsta fulltrúa fær sá listi kjörinn sem hæstu útkomutölu hefur. Sú tala er síðan felld niður. Annan fulltrúa fær sá listi sem nú hefur hæstu útkomutölu. Þessu skal fram haldið uns úthlutað hefur verið jafnmörgum fulltrúum og kjósa á.
  3. Nú eru of fá nöfn á lista þegar til úthlutunar kemur skv. 2. tölul. og skal þá ganga fram hjá þeim lista við frekari úthlutun.
  4. Nú eru tvær eða fleiri útkomutölur jafnháar þegar að þeim kemur skv. 2. tölul. og skal þá hluta um (hlutkesti varpað) röð þeirra.

Loks er skoðað hvort röð frambjóðenda á hverjum lista tekur einhverjum breytingum vegna útstrikana eða breytinga á númeraröð. Er þá fylgt eftirfarandi reglum:

  1. Kjörstjórn tekur saman þá kjörseðla þar sem engin breyting hefur verið gerð á listanum. Þar telst efsta nafn listans vera í fyrsta sæti, næsta nafn í öðru sæti o.s.frv.
  2. Næst tekur kjörstjórn alla þá kjörseðla þar sem kjósendur hafa gert einhverjar breytingar á röð frambjóðenda og telur atkvæði hvers frambjóðanda í hvert sæti listans.
  3. Nöfnum frambjóðenda á listanum er nú raðað þannig að sá sem hlotið hefur flest atkvæði í 1. sæti hlýtur það sæti. Sá frambjóðandi, að þessum slepptum, sem hlotið hefur flest atkvæði í 1. og 2. sæti samanlagt hlýtur 2. sætið o.s.frv. uns raðað hefur verið í sæti svo mörgum frambjóðendum listans að ljóst sé hverjir teljast fulltrúar hans og hverjir varafulltrúar.
  4. Þeir einstaklingar sem ekki hafa náð kjöri sem aðalmenn af framboðslista teljast varamenn í réttri röð.

Óbundnar kosningar

Talin eru atkvæði sem hver einstaklingur fær.

Þeir sem flest atkvæði fá sem aðalmenn eru réttkjörnir aðalmenn.

Hafi tveir eða fleiri hlotið jafnmörg atkvæði sem aðalmenn og geta ekki báðir eða allir náð kjöri ræður hlutkesti.

Varamenn skulu vera jafnmargir og aðalmenn og er röð varamanna ákveðin með eftirfarandi hætti:

  1. Varamaður er sá sem flest atkvæði hlýtur samanlagt í 1. sæti á lista yfir varamenn að viðbættum þeim atkvæðum sem hann hlaut í sæti aðalmanns.
  2. Varamaður er sá sem flest atkvæði hlýtur í 2. sæti lista varamanna að viðbættum þeim atkvæðum sem hann hlaut í sæti aðalmanns og í 1. sæti á lista varamanna.

Kosning annarra varamanna ákvarðast á sama hátt uns fyllt er í sæti þau sem kjósa skal í.

Nú fá tveir menn jafnmörg atkvæði samanlagt í sæti varamanns og skal þá hlutkesti ráða hvor hlýtur sætið. Sá sem ekki hlýtur sætið tekur sæti næsta varamanns og færast þá þeir varamenn sem á eftir koma um set.

Hvenær tekur ný sveitarstjórn við störfum?

Nýkjörin sveitarstjórn tekur við störfum 15 dögum eftir kjördag og jafnskjótt lætur fráfarandi sveitarstjórn af störfum. Fulltrúi í sveitarstjórn getur krafist frestunar á framkvæmd ákvarðana sveitarstjórnar sem teknar eru frá kjördegi og þar til nýkjörin sveitarstjórn tekur við störfum og skal þá leggja mál að nýju fyrir hana á fyrsta fundi hennar. Nú er mál þannig vaxið að framkvæmd ákvörðunar þolir enga bið og verður þessa úrræðis þá ekki neytt, enda sé heimild til afgreiðslu málsins í fjárhagsáætlun, lögum, almennum fyrirmælum stjórnvalda eða með leyfi ráðuneytisins.