Athugið: Þessar síður fjalla um sveitarstjórnarkosningar 31. maí 2014.


Kosningaréttur og kjörskrá

Kosningaréttur og kjörskrá

Gerð kjörskrár

Sveitarstjórnir sjá um að kjörskrár séu gerðar og skal samningu þeirra lokið í tæka tíð fyrir framlagningu. Á kjörskrá skal taka alla þá sem kosningarétt eiga í viðkomandi kosningum og er skráning á kjörskrá skilyrði þess að fá að greiða atkvæði. Vakin er athygli á að kjörskrár skulu lagðar fram í síðasta lagi 21. maí 2014.

Kjörskrá skal rita á eyðublöð sem Þjóðskrá Íslands lætur í té og skal farið nákvæmlega eftir leiðbeiningum hennar. Þjóðskrá Íslands sendir sveitarstjórnum kjörskrárstofn fljótlega eftir viðmiðunardag kjörskrár sem er 10. maí. Á kjörskrá skal skrá eftirfarandi: Nafn kjósanda, heimilisfang (lögheimili) og kennitölu. Einnig skal skrá þjóðerni ef um erlendan ríkisborgara er að ræða.

Hverjir eiga kosningarétt?

Á kjörskrá skal taka alla íslenska ríkisborgara sem náð hafa 18 ára aldri á kjördag, 31. maí 2014, og sem skráðir eru með lögheimili í viðkomandi sveitarfélagi þremur vikum fyrir kjördag, 10. maí 2014. Óheimilt er því að breyta kjörskrá ef tilkynning um nýtt lögheimili hefur ekki borist Þjóðskrá Íslands fyrir þann tíma.

Einnig skal taka á kjörskrá danska, finnska, norska og sænska ríkisborgara sem átt hafa lögheimili hér á landi í þrjú ár samfellt fyrir kjördag og aðra erlenda ríkisborgara sem átt hafa lögheimili hér á landi í fimm ár samfellt fyrir kjördag, enda fullnægi þeir að öðru leyti framangreindum skilyrðum.

Íslenskir ríkisborgarar sem stunda nám á hinum Norðurlöndunum og sem þurft hafa að flytja lögheimili sitt þangað vegna ákvæða samnings Norðurlandanna um almannaskráningu, glata ekki kosningarétti sínum vegna þess.

Kjörskrár skulu lagðar fram eigi síðar en tíu dögum fyrir kjördag, 21. maí 2014. Kjörskrá skal liggja frammi á skrifstofu sveitarfélags eða öðrum hentugum stað á almennum skrifstofutíma til kjördags.

Hvar ertu á kjörskrá?

Kjósendur eru á kjörskrá í því sveitarfélagi þar sem þeir eiga skráð lögheimili þremur vikum fyrir kjördag, þann 10. maí 2014. Flutningur lögheimilis eftir þann tíma breytir ekki skráningu á kjörskrá.

Eftir viðmiðunardag kjörskrár, 10. maí 2014, munu kjósendur geta kynnt sér hér á vefnum hvar þeir eru skráðir á kjörskrá.

Athugasemdir við kjörskrá

Hver sem er getur gert athugasemdir til sveitarstjórnar um að nafn eða nöfn einhverra kjósenda vanti á kjörskrá eða þeim sé þar ofaukið. Heimilt er að gera slíkar athugasemdir til sveitarstjórnar fram á kjördag.

Afgreiðsla athugasemda:

Sveitarstjórn skal þegar taka til meðferðar athugasemdir er henni berast vegna kjörskrár og gera viðeigandi leiðréttingar á henni. Tilefni slíkra leiðréttinga er einkum öflun eða missir íslensks ríkisfangs eða andlát á tímabilinu frá viðmiðunardegi kjörskrár til kjördags. Slíkar leiðréttingar má gera fram á kjördag.

Tilkynningar um leiðréttingar:

Sveitarstjórn skal þegar tilkynna hlutaðeigandi einstaklingum um leiðréttingar á kjörskrá, svo og þeirri sveitarstjórn er málið getur varðað.