Athugið: Þessar síður fjalla um þjóðaratkvæðagreiðslur.


Framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna

Álykti Alþingi að fram skuli fara almenn og leynileg þjóðaratkvæðagreiðsla um tiltekið málefni eða lagafrumvarp fer um framkvæmdina samkvæmt lögum um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna nr. 91/2010. Alþingi ákveður kjördag þjóðaratkvæðagreiðslu samkvæmt framangreindu en innanríkisráðuneytið auglýsir atkvæðagreiðsluna einu sinni í Lögbirtingablaði og þrisvar sinnum í Ríkisútvarpinu. Þar skal einnig birta spurningar sem lagðar verða fyrir kjósendur.

Framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslunnar er samstarf nokkurra opinberra aðila. Má þar helst nefna Alþingi, innanríkisráðuneytið, utanríkisráðuneytið, sýslumenn, sveitarstjórnir, Þjóðskrá Íslands, undirkjörstjórnir og aðrar kjörstjórnir sveitarfélaga, yfirkjörstjórnir í sex kjördæmum landsins og landskjörstjórn.

Þessi stjórnvöld skipta með sér verkum og vinna að því að heildarframkvæmd kosningarinnar fari fram með skýrum og traustum hætti.