Athugið: Þessar síður fjalla um þjóðaratkvæðagreiðslur.


Landskjörstjórn

Landskjörstjórn er kosin af Alþingi eftir hverjar almennar alþingiskosningar og í henni sitja fimm menn og jafnmargir til vara. Landskjörstjórn var síðast kosin af Alþingi 28. febrúar 2011. Landskjörstjórn velur sér sjálf oddvita og skiptir að öðru leyti með sér verkum. Landskjörstjórn skal eins og aðrar kjörstjórnir halda gerðabók og bóka gerðir sínar. Sjá einnig vef landskjörstjórnar, http://www.landskjor.is.

Í lögum um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna nr. 91/2010 er getið um sérstakt hlutverk landskjörstjórnar við þjóðaratkvæðagreiðslur.

Við þjóðaratkvæðagreiðslur hefur landskjörstjórn m.a. eftirfarandi verkefni:

 • Kjörskrár og mörk kjördæmanna í Reykjavíkurkjördæmunum
  Landskjörstjórn ákveður í hvoru Reykjavíkurkjördæminu kjósendur sem búsettir eru erlendis, sem taka ber á kjörskrá, greiði atkvæði. Sama gildir um þá sem skráðir eru óstaðsettir í hús í Reykjavík.

Auglýsing landskjörstjórnar um mörk kjördæmanna í Reykjavík við þjóðaratkvæðagreiðsluna 20. október 2012:

Mörk kjördæmanna í Reykjavík við þjóðaratkvæðagreiðsluna
20. október 2012

Við fyrirhugaða þjóðaratkvæðagreiðslu laugardaginn 20. október 2102 um tillögur stjórnlagaráðs til breytinga á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944 og tiltekin álitaefni þeim tengd, eiga mörk kjördæma að vera þau sömu og við síðustu alþingiskosningar, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna, nr. 91/2010. Landskjörstjórn hefur ákveðið að auglýsing nr. 346/2009, sem fjallar um mörk kjördæmanna tveggja í Reykjavík við alþingiskosningarnar 25. apríl 2009, skuli fylgt við kjörið.

Gildir það einnig um fyrirmæli hennar um hvar mörkin skuli vera í hverjum mánuði, sbr. 2. mgr. 23. gr. laga um kosningar til Alþingis, nr. 24/2000, en þau ráða því hvar þeir, sem taka ber á kjörskrá í Reykjavík en búa erlendis eða eru skráðir óstaðsettir í hús í Reykjavík, greiða atkvæði. Samkvæmt því greiða þeir sem tilheyra þessum hópum og eru fæddir 1. til 15. hvers mánaðar atkvæði í Reykjavíkurkjördæmi suður en þeir sem eru fæddir 16. dag mánaðar eða síðar í Reykjavíkurkjördæmi norður.

Auglýsing nr. 346/2009

 • Umboðsmenn skipaðir í hverju kjördæmi
  Landskjörstjórn skipar umboðsmenn í hverju kjördæmanna sex sem hafa það hlutverk að gæta ólíkra sjónarmiða við atkvæðagreiðsluna, talningu atkvæða og úrlausn ágreiningarmála. Meginmarkmið umboðsmanna er að fylgjast með framkvæmd talningar og ef ágreiningur verður milli yfirkjörstjórnar og umboðsmanna um gildi artkvæðaseðla geta þeir skotið honum til landskjörstjórnar.

Fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna 9. apríl 2011 skipaði landskjörstjórn tvo einstaklinga í hverju kjördæmi til þess að gegna þessu hlutverki, einn í hvora fylkingu. Tveir þeirra voru jafnframt skipaðir til þess að vera umboðsmenn á landsvísu.

Að lokinni talningu atkvæða við þjóðatatkvæðagreiðsluna senda yfirkjörstjórnir landskjörstjórn eftirrit af gerðabókum sínum ásamt þeim kjörseðlum sem ágreiningur hefur verið um milli umboðsmanna og yfirkjörstjórna.

Þegar landskjörstjórn hefur fengið í hendur eftirrit gerðabóka allra yfirkjörstjórna og ágreiningsseðla auglýsir hún með hæfilegum fyrirvara hvar og hvenær hún kemur saman til fundar til að úrskurða um gildi ágreiningsseðlanna og lýsa úrslitum þjóðaratkvæðagreiðslunnar til að umboðsmönnum gefist kostur á að vera viðstaddir. Að því loknu tilkynnir landskjörstjórn innanríkisráðuneyrinu um niðurstöður sínar.

Innanríkisráðuneytið auglýsir úrslit atkvæðagreiðslunnar í Lögbirtingablaði og Ríkisútvarpi.  

 • Meiri hluti gildra atkvæða
  Til þess að spurning eða tillaga sem borin er upp í þjóðaratkvæðagreiðslu teljist samþykkt þarf hún að hafa hlotið meiri hlurta gildra atkvæða í atkvæðagreiðslunni.
 • Kærur vegna þjóðaratkvæðagreiðslunnar
  Kærur um ólögmæti atkvæðagreiðslunnar, aðrar en refsikærur, skulu sendar landskjörstjórn til úrlausnar eigi síðar en tveimur dögum fyrir fund þann sem landskjörstjórn boðar til með umboðsmönnum til að úrskurða um gildi ágreiningsseðlanna og lýsa úrslitum þjóðaratkvæðagreiðslunnar.

Gallar á kosningu leiða ekki til ógildingar kosninga, nema ætla megi að þeir hafi haft áhrif á úrslit kosninganna.

Landskjörstjórn

Aðalmenn:
Freyr Ófeigsson formaður
Sigrún Benediktsdóttir varaformaður
Björn Jósef Arnviðarson
Ástráður Haraldsson
Jakob Björnsson

Varamenn:
Sigurjón Sveinsson
Hrafnhildur Stefánsdóttir
Anna Tryggvadóttir
Sigurður Kári Árnason
Linda Bentsdóttir

Aðsetur landskjörstjórnar er í Kirkjustræti 8b.
Ritari landskjörstjórnar er Þórhallur Vilhjálmsson, netfang: thorhallurv@althingi.is
Sími: 563 0933 og 692 3101.

Póstfang:
Landskjörstjórn,
b.t. Þórhalls Vilhjálmssonar,

Alþingi við Austurvöll,
150 Reykjavík.

Veffang:
www.landskjor.is