Athugið: Þessar síður fjalla um þjóðaratkvæðagreiðslur.


Sveitarstjórnir

Sveitarstjórn hvers sveitarfélags sér um gerð kjörskrár, kosningu undirkjörstjórna og sérstakra kjörstjórna og skiptingu sveitarfélags í kjördeildir.

Kjördeildir

Skipting sveitarfélags
Hverju kjördæmi skal skipt í kjördeildir og er hvert sveitarfélag ein kjördeild nema sveitarstjórn ákveði að skipta því í fleiri kjördeildir. Kjördeildir skal að jafnaði kenna við kjörstað eða tölusetja til aðgreiningar.

Kjörstjórnir

Kosning undirkjörstjórna og sérstakra kjörstjórna
Sveitarstjórn kýs undirkjörstjórn í hverja kjördeild, 3 aðalmenn og 3 til vara.

Einnig geta sveitarstjórnir kosið sérstakar kjörstjórnir:

Í fyrsta lagi er miðað við að ef kjördeildir eru fleiri en ein í sveitarfélagi geti sveitarstjórn kosið sérstaka þriggja manna kjörstjórn til að hafa umsjón með starfi undirkjörstjórna. Þessi sérstaka kjörstjórn samræmir þá störf undirkjörstjórna, auglýsir kosningu, annast skýrslugerð o.fl.

Í öðru lagi er gert ráð fyrir að þar sem kjördeildir eru fleiri en ein á sama kjörstað skuli sveitarstjórn kjósa þriggja manna kjörstjórn, hverfis- eða yfirkjörstjórn, til að hafa með höndum stjórn undirkjörstjórna á kjörstað.

Í þriðja lagi er mælt fyrir um að ef slíkir kjörstaðir sem rætt er um í 2. lið hér að ofan, eru fleiri en einn í sveitarfélagi, skuli sveitarstjórn kjósa sérstaka yfirkjörstjórn sveitarfélagsins. Yfirkjörstjórn þessi gæti eftir atvikum einnig gegnt hlutverki hverfiskjörstjórnar.

Kjörstjórnir skulu kosnar á fyrsta fundi nýkjörinnar sveitarstjórnar til fjögurra ára í senn. Þar sem hins vegar eru kosnar sérstakar kjörstjórnir, hverfis- eða yfirkjörstjórnir, er sveitarstjórn heimilt að fresta kosningu undir- og hverfiskjörstjórna, þannig að þær verði kosnar til eins árs fyrir hverjar almennar alþingiskosningar.

Kjörskrár

Gerð kjörskrár
Sveitarstjórnir gera kjörskrár á grundvelli kjörskrárstofna frá Þjóðskrá Íslands en aðeins þeir sem eru á kjörskrá þegar kosning fer fram, geta neytt kosningarréttar. Kjörskrá skal lögð fram almenning til sýnis eigi síðar en tíu dögum fyrir kjördag, miðvikudaginn 10. október 2012.

Hverjir eru teknir inn á kjörskrá?
Þeir íbúar sveitarfélags sem uppfylla öll kosningaréttarskilyrði á viðmiðunardegi kjörskrár sem eru þrjár vikur fyrir kjördag, 29. september 2012. Eftirfarandi eru þau skilyrði sem uppfylla þarf:

 1. Vera 18 ára þegar að kosning fer fram.
 2. Vera íslenskur ríkisborgari.
 3. Vera skráður með lögheimili í sveitarfélaginu samkvæmt íbúaskrá þjóðskrár þremur vikum fyrir kjördag laugardaginn 29. september 2012.

Einnig eru teknir á kjörskrá íslenskir ríkisborgarar sem eru búsettir erlendis og hafa náð 18 ára aldri og uppfylla nánar tiltekin skilyrði. Samkvæmt 1. mgr. 23. gr. laga um kosningar til Alþingis eru skilyrðin þessi:

 1. Íslenskur ríkisborgari sem átt hefur lögheimili hér á landi á kosningarrétt í átta ár frá því að hann flutti lögheimili sitt af landinu, talið frá 1. desember næstum fyrir kjördag.
 2. Ef meira en átta ár eru liðin frá því að viðkomandi átti síðast lögheimili hér á landi, getur hann sótt um kosningarrétt á þar til gerðu eyðublaði til Þjóðskrár Íslands, enda sé hann enn íslenskur ríkisborgari. Umsókn send Þjóðskrá Íslands með þessum hætti skal ekki tekin til greina ef hún berst meira en einu ári áður en átta ára rétturinn fellur niður. Þeir sem teknir eru á kjörskrá með þessum hætti eru á kjörskrá í því sveitarfélagi þar sem þeir áttu síðast skráð lögheimili hér á landi og gildir sú ákvörðun í fjögur ár frá 1. desember næstum eftir að umsókn var lögð fram.

  Hverjir eru ekki teknir inn á kjörskrá?
  Einstaklingur er ekki tekinn á kjörskrá í tilteknu sveitarfélagi nema hann hafi verið skráður með lögheimili í því samkvæmt íbúaskrá þjóðskrár 3 vikum fyrir kjördag laugardaginn, 29. september 2012. Það er því hin opinbera skráning í þjóðskrá sem gildir. Ekki er hægt að taka mann á kjörskrá í sveitarfélagi hafi honum láðst að tilkynna flutning lögheimilis til Þjóðskrár Íslands fyrir áðurgreindan viðmiðunardag kjörskrár.

  Framlagning kjörskrár
  Þegar kjörskrá hefur verið samin skal hún undirrituð af oddvita sveitarstjórnar eða framkvæmdastjóra sveitarfélags. Kjörskrá skal liggja frammi almenningi til sýnis í minnst tíu daga fyrir kjördag. Algengast er að hún liggi frammi á skrifstofum sveitarfélaganna á almennum skrifstofutíma, en sveitarstjórn er falið að auglýsa framlagningarstað.
 3. Athugasemdir við kjörskrá
  Hver sem er getur gert athugasemdir til sveitarstjórnar um að nafn einhvers vanti á kjörskrá eða sé þar ofaukið. Slíkar athugasemdir er heimilt að gera fram á kjördag. Komi fram athugasemd um að nafn skuli tekið af kjörskrá skal það þegar tilkynnt hlutaðeigandi einstaklingi. Komi fram athugasemd um að taka skuli á kjörskrá einhvern sem ætla má að sé á kjörskrá í öðru sveitarfélagi skal það þegar tilkynnt hlutaðeigandi sveitarstjórn. Viðkomandi skal þá veittur frestur, eftir atvikum, til að koma að athugasemdum. Ef til ágreinings kemur ritar sveitarstjórn úrskurð í gerðabók sína.

  Óheimilt er að breyta kjörskrá vegna nýs lögheimilis nema flutningur hafi átt sér stað í síðasta lagi þremur vikum fyrir kjördag og tilkynning um nýtt lögheimili hafi borist Þjóðskrá Íslands til skráningar fyrir sama tíma eða ef umsókn þess sem búið hefur erlendis lengur en átta ár um að vera tekinn á kjörskrá hefur ekki borist Þjóðskrá Íslands fyrir 1. desember 2011.

Sveitarstjórn skal þegar taka til meðferðar athugasemdir sem henni berast við kjörskrá og gera leiðréttingar á henni ef við á, en heimilt er að gera slíka leiðréttingar fram á kjördag. Enn fremur skal sveitarstjórn leiðrétta kjörskrá ef henni berst vitneskja um andlát eða um að einhver hafi öðlast eða eftir atvikum misst íslenskt ríkisfang. Sveitarstjórn skal þá tilkynna hlutaðeigandi um leiðréttingar á kjörskrá og þeirri sveitarstjórn annarri sem málið getur varðað. Þetta ber einnig að tilkynna hlutaðeigandi kjörstjórn og oddvita yfirkjörstjórnar.

Kjörstaðir

Ákvörðun kjörstaðar
Sveitarstjórn ákveður kjörstað fyrir hverja kjördeild og á sama kjörstað mega vera fleiri en ein kjördeild. Kjörstað skal auglýsa almenningi með nægum fyrirvara.