Athugið: Þessar síður fjalla um þjóðaratkvæðagreiðslur.


Sýslumenn

Framkvæmd atkvæðagreiðslu utan kjörfundar fer að mestu leyti fram hjá embættum sýslumanna.

Kjörskrár

Hlutast til um að kjörskrá verði samin
Ef kjörskrá hefur ekki verið gerð af sveitarstjórn eða hún lagt hana fram í tæka tíð eða ákvæðum laga um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna og ákvæðum laga um kosningar til Alþingis verið fylgt við það, skal sýslumaður, jafnskjótt og hann fær vitneskju um það, gera nauðsynlegar ráðstafanir til að kjörskrá verði tafarlaust samin og það leiðrétt sem skort hefur á að færi lögum samkvæmt.

Kjörgögn við atkvæðagreiðslu utan kjörfundar

Afgreiðsla kjörgagna
Innanríkisráðuneytið lætur í té kjörgögn við atkvæðagreiðslu utan kjörfundar.

Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar

Atkvæðagreiðsla hjá sýslumönnum
Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar fer fram hjá sýslumönnum, nema í þeim tilvikum þegar kjósendur eru staddir erlendis eða um borð í íslensku skipi í siglingum erlendis eða á fjarlægum miðum, þá gilda aðrar reglur. Sýslumenn geta ákveðið að atkvæðagreiðsla skuli fara fram í aðalskrifstofu þeirra eða útibúi. Þá getur sýslumaður ákveðið að atkvæðagreiðsla á aðsetri embættis fari fram á sérstökum kjörstað utan aðalskrifstofunnar, svo og að atkvæðagreiðsla fari fram á öðrum stað í umdæmi hans. Einnig ákveður hann hvaða starfsmenn hans skulu vera kjörstjórar og ræður aðra trúnaðarmenn til þeirra starfa.

Framkvæmd atkvæðagreiðslu utan kjörfundar á stofnunum, í fangelsum, í heimahúsi o.s.frv.
Kjósanda, sem er til meðferðar á sjúkrahúsi eða vistmaður þar, eða er heimilsmaður á dvalarheimili aldraðra eða stofnun fyrir fatlaða, er heimilt að greiða atkvæði á stofnuninni. Með sama hætti fer um vistmann fangelsis. Slík atkvæðagreiðsla skal fara fram á þeim tíma sem kjörstjóri ákveður, á sjúkrahúsi sem næst kjördegi, að höfðu samráði við stjórn stofnunar. Hún má þó ekki fara fram fyrr en 3 vikum fyrir kjördag, laugardaginn 29. september 2012.

Þá sjá sýslumenn um framkvæmd utankjörfundarkosninga í heimahúsum en kjósanda, sem ekki getur sótt kjörfund á kjördegi vegna sjúkdóms, fötlunar eða barnsburðar, er heimilt að greiða atkvæði í heimahúsi nema hann eigi kost á að greiða atkvæði á stofnun, sbr. framangreint. Ósk um að greiða atkvæði í heimahúsi skal vera skrifleg og studd vottorði lögráða manns um hagi kjósandans. Slík atkvæðagreiðsla má þó ekki fara fram fyrr en 3 vikum fyrir kjördag, laugardaginn 29. september 2012. Ósk um atkvæðagreiðslu í heimahúsi verður að bera fram við hlutaðeigandi kjörstjóra eigi síðar en fjórum dögum fyrir kjördag, þriðjudaginn 16. október 2012, kl. 16.

Kjörstjóri auglýsir hvar og hvenær atkvæðagreiðsla geti farið fram, með þeim hætti sem venja er á hverjum stað að birta opinberar auglýsingar.

Hvernig fer kosning fram utan kjörfundar?
Kjósandi þarf að gera kjörstjóra grein fyrir sér með því að framvísa kennivottorði eða nafnskírteini, eða á annan fullnægjandi hátt að mati kjörstjóra. Kennivottorð er persónuskilríki með mynd, svo sem vegabréf eða ökuskírteini.

Að þessu loknu fær kjósandi afhent kjörgögn.

Skal kjósandi svo aðstoðarlaust og án þess að nokkur annar sjái rita atkvæði sitt á kjörseðilinn og setja atkvæðið í kjörseðilsumslagið. Ef kjörseðill ónýtist hjá kjósanda má hann fá annan í stað hins.

Þá áritar og undirritar kjósandi fylgibréfið í viðurvist kjörstjóra sem vottar atkvæðagreiðsluna.

Að lokum skal kjörseðilsumslagið ásamt fylgibréfinu lagt í sendiumslagið og því lokað vandlega. Umslagið skal síðan áritað til sýslumannsins eða kjörstjórnarinnar í því umdæmi þar sem kjósandinn telur sig standa á kjörskrá. Á sendiumslagið skal rita nafn kjósanda, kennitölu og lögheimili.

Kjósanda er heimilt að greiða atkvæði utan kjörfundar oftar en einu sinni og skal þá aðeins hið síðastgreidda atkvæði tekið til greina. Utankjörfundaratkvæði telst greitt þann dag sem fylgibréfið er dagsett.

Kjósandi þarf aðstoð
Ef kjósandi skýrir kjörstjóra frá því að hann sé ekki fær um að árita kjörseðilinn á fyrirskipaðan hátt eða árita og undirrita fylgibréfið sakir sjónleysis eða annarrar fötlunar, skal kjörstjóri veita honum aðstoð til þess í einrúmi, enda er hann bundinn þagnarheiti um að segja ekki frá því sem þeim fer þar á milli. Aðstoðin skal þó aðeins veitt að kjósandi geti sjálfur skýrt þeim er aðstoðina veitir ótvírætt frá því hvernig hann vill greiða atkvæði sitt. Kjósandi verður sjálfur að biðja um aðstoð.

Hvernig fer með atkvæðið?
Ef atkvæðið er greitt hjá kjörstjóra í umdæmi þar sem kjósandi er á kjörskrá, þá skilur hann þar eftir bréf með atkvæði sínu og skal sjálfur láta bréfið í venjulegan atkvæðakassa. Atkvæðakassinn skal svo innsiglaður af kjörstjóra ásamt hlutaðeigandi kjörstjórn.

Ef atkvæðið er greitt hjá kjörstjóra í öðru umdæmi en því sem kjósandi er á kjörskrá, þá annast og kostar hann sjálfur sendingu atkvæðisbréfs síns. Kjörstjóra er þó skylt, ef kjósandi óskar þess, að koma bréfinu í póst.

Nægjanlegt er að koma bréfi með utankjörfundaratkvæði í einhverja kjördeild þess kjördæmis þar sem kjósandi er á kjörskrá.

Utankjörfundaratkvæði skal vera komið í hendur kjörstjórnar fyrir lok kjörfundar á kjördag svo að hægt sé að taka það til greina við kosninguna.