Athugið: Þessar síður fjalla um þjóðaratkvæðagreiðslur.


Þjóðskrá Íslands

Þjóðskrá Íslands sér um gerð kjörskrárstofna en á kjörskrárstofni eru allir íslenskir ríkisborgarar sem skráðir voru með lögheimili í ákveðnu sveitarfélagi samkvæmt íbúaskrá þjóðskrár laugardaginn 29. september 2012 og fæddir eru 20. október 1994 og fyrr. Ennfremur eru á kjörskrárstofni þeir íslenskir ríkisborgarar, sem lögheimili eiga erlendis en eiga kosningarrétt samkvæmt lögum um kosningar til Alþingis.

Kjörskrár miðast við skráð lögheimili í sveitarfélagi eins og það er samkvæmt íbúaskrá þjóðskrár þremur vikum fyrir kjördag, eða 29. september 2012. Óheimilt er því að breyta kjörskrá ef tilkynning um nýtt lögheimili hefur ekki borist Þjóðskrá Íslands fyrir þennan tíma. Breytingar á lögheimili eftir viðmiðunardaginn leiða því ekki til breytinga á kjörskrá. Sveitarstjórn er við samningu kjörskrár þannig bundin við skráningu á íbúaskrá þjóðskrár 29. september 2012 að því er varðar staðsetningu í sveitarfélag.

Kjörskrár skulu lagðar fram eigi síðar en miðvikudaginn 10. október 2012. Kjörskrá skal liggja frammi á skrifstofu sveitarfélags eða öðrum hentugum stað á almennum skrifstofutíma til kjördags. Sveitarstjórnir taka þegar til meðferðar athugasemdir er þeim berast vegna kjörskrár og gera viðeigandi leiðréttingar, ef við á.

Erlendir ríkisborgarar

Erlendir ríkisborgarar eiga ekki kosningarrétt við kjör forseta Íslands og eru því ekki á kjörskrárstofni. Eina undantekningin eru danskir ríkisborgarar, sem eiga kosningarrétt samkvæmt lögum nr. 85/1946, þ.e. þeir, sem voru búsettir á Íslandi 6. mars 1946 eða einhvern tíma á síðustu 10 árum fyrir þann tíma.

Íslendingar búsettir erlendis

  • Skemur en 8 ár
    Íslenskir ríkisborgarar, sem flutt hafa lögheimili sitt til útlanda eftir 1. desember 2003 og náð hafa 18 ára aldri á kjördag, eiga kosningarrétt. Þessir einstaklingar eru teknir á kjörskrárstofn, án umsóknar, í því sveitarfélagi, þar sem þeir áttu síðast skráð lögheimili.
  • Lengur en 8 ár
    Íslenskir ríkisborgarar, sem flutt hafa lögheimili sitt til útlanda fyrir 1. desember 2003, verða teknir á kjörskrá við þessar kosningar hafi þeir sótt um það til Þjóðskrár Íslands  fyrir 1. desember 2011. Þessir einstaklingar eru teknir á kjörskrárstofn í því sveitarfélagi, þar sem þeir áttu síðast skráð lögheimili, sbr. b-lið 1. mgr. 23. gr. laga um kosningar til Alþingis nr. 24/2000.